Braki úr kafbátnum Titan var landað í höfn í St. Johns á Nýfundnalandi í dag úr kanadíska skipinu The Horizon Arctic.
„Aðgerðum er „lokið með góðum árangri,“ segir í yfirlýsingu Pelagic Research Services á Facebook. Rannsakendur fóru um borð í Horizon Arctic stuttu eftir að það lagðist að bryggju og krani sást færa brak Titan á land.
„Þeir hafa unnið allan sólarhringinn núna í tíu daga og aðgerðin hefur reynt á þá líkamlega og andlega, og eru þeir ákafir eftir að klára verkefnið og snúa aftur til ástvina sinna,“ sagði fyrirtækið í tveimur tístum um leitarmenn björgunarleiðangursins.
Á sunnudag tilkynnti bandaríska strandgæslan að rannsóknarnefnd sjóslysa hefði verið kölluð saman til að rannsaka sjóslys Titan-kafbátsins og þeirra fimm manna sem voru um borð. Ekki hefur þó verið gefið upp hvenær rannsókn mun hefjast eða hversu langan tíma er áætlað að hún taki.
„Meginmarkmið MBI er að komast að því hvað olli atvikinu,“ sagði Jason D. Neubauer, formaður MBI og strandgæsluskipstjóri, við fréttamenn á blaðamannafundi í Boston á sunnudag.
Rannsakendur munu einnig rannsaka og skera úr um hvort einhver lög hafi verið brotin og hvort grípa eigi til frekari aðgerða, að því fréttatilkynning greinir frá. Nefndin mun meta hvort þörf sé á nýrri lagasetningu eða reglugerðum, eða breytingu eða afnámi á núverandi regluverki til að koma í veg fyrir slys af þessu tagi í framtíððinni.
„Aðalmarkmið mitt er að koma í veg fyrir svipað atvik með því að gera nauðsynlegar ráðleggingar til að auka öryggi siglingasvæðisins um allan heim,“ sagði Neubauer á sunnudag.