fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að standa skil á gerðum sínum

Eyjan
Fimmtudaginn 29. júní 2023 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er alveg ljóst að þessir stjórnendur verða að standa skil á gerðum sínum.“

Þannig komst forsætisráðherra að orði eftir áfellisdóm bankaeftirlits Seðlabankans um þátt Íslandsbanka í bankasöluferli ríkisstjórnarinnar. Fjármálaráðherra sagði svo að áfellisdómurinn yrði að hafa afleiðingar.

Bankastjórinn vísar til þessara ummæla í afsagnaryfirlýsingu sinni í gær.

Ábyrgð á brotum undirmanna

Afsögn bankastjórans er athyglisverð fyrir þá sök að rannsókn bankaeftirlitsins leiddi ekki í ljós að hún sjálf hefði beint brotið lög eða reglur. Það voru undirmenn hennar sem brugðust.

Bankastjórinn segir af sér vegna þess að hún bar sem stjórnandi ábyrgð á gerðum undirmanna sinna.

Mistök hennar voru að sinna ekki sem skyldi leiðbeiningar- og eftirlitsskyldu æðsta stjórnanda.

Það hefur afleiðingar eins og fjármálaráðherra segir.

Gerist í ríkisbanka

Forsætisráðherra segir að rannsókn af þessu tagi hefði ekki birst fyrir Hrun. Þessi ummæli beina athyglinni að því að Íslandsbanki hefur verið ríkisbanki í 15 ár.

Síðustu sex ár hefur ríkisstjórn undir forystu VG borið pólitíska eigendaábyrgð á ríkisbankanum. Það dugði ekki til að koma í veg fyrir hamfarirnar.

Frá pólitísku sjónarhorni er þetta ef til vill það merkilegasta í þessum vendingum öllum.

Hrunskýrslan mikla fjallaði á sínum tíma jöfnum höndum um lagalega og siðferðilega ábyrgð stjórnenda og eigenda einkabankanna. Siðferðilega eigandaábyrgðin gufaði ekki upp með ríkisvæðingunni.

Bankasýslan vélar enn um siðferðilega ábyrgð

Um páskaleytið í fyrra lýsti ríkisstjórnin því yfir að Bankasýslan bæri alla ábyrgð á því sem misfarist hefði við sölu á eignarhlut ríkisins. Hún missti allt traust á stjórnendum hennar og lofaði þjóðinni að leggja hana niður.

Nú er það hlutverk stjórnenda stofnunar, sem ríkisstjórnin lýsti vantrausti á fyrir rúmu ári, að véla um siðferðilega ábyrgð stjórnar Íslandsbanka á boðuðum hluthafafundi.

Það er heldur brosleg staða í ljósi vantraustsins í fyrra.

Prinsipp afstaða eða leikbragð?

Beinast liggur við að skilja ummæli ráðherranna svo að prinsipp afstaða þeirra sé sú að æðstu stjórnendur eigi að víkja vegna skorts á leiðbeiningaskyldu og eftirlitsskyldu þótt þeir hafi sjálfir ekki gerst brotlegir.

Hitt má líka vel vera að þeim hafi gengið það helst til með þessum ummælum að beina athygli almennings að stjórnendum bankans og draga hana frá ríkisstjórninni sjálfri.

Sé svo, er rétt að líta á ummælin sem leikbragð en ekki prinsipp afstöðu. Viðbrögðin við óskum um frekari athugun á pólitísku ábyrgðinni munu sjálfkrafa svara því hvor skýringin er rétt.

Spurningin er: Gildir þessi siðferðilega krafa bara um æðsta stórnanda fyrirtækis í eigu ríkisins en ekki æðstu stjórnendur ríkisins?

Botninn hefur ekki verið sleginn í tunnuna varðandi  veigamikil álitamál, sem snúa beint að siðferðilegri og lagalegri ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem æðsta stjórnanda.

Sala til skyldmenna

Ríkisstjórnin vísaði á bug spurningunni um sérstakt hæfi fjármálaráðherra til sölu á eignarhlutum ríkisins til skyldmenna.

Umboðsmaður Alþingis tók það eigi að síður til skoðunar. Hún er því í eðlilegu ferli.

Þetta sýnir að sú fullyrðing forsætisráðherra að engum álitaefnum varðandi ábyrgð fjármálaráðherra sé ósvarað er ósönn með öllu.

Ekkert framsal á valdi og ábyrgð

Í lögum um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum eru engin armslengdarákvæði varðandi söluferlið; bara ákvæði um vald og ábyrgð ráðherra á ferlinu öllu.

Auk þess gilda stjórnsýslulög um allt ferlið þó að undirstofnun og undirverktakar sjái um hluta framkvæmdarinnar.

Fjármálaráðherra hefur formlega staðfest á Alþingi í svari við fyrirspurn frá Þorbjörgu S. Gunnlaugsdóttur að hann hafi hvorki framselt vald né ábyrgð til Bankasýslunnar eða undirverktaka hennar.

Veigamiklum rannsóknarspurningum er ósvarað

Stjórnsýsluathugun ríkisendurskoðunar og rannsókn bankaeftirlitsins taka ekki til veigamikilla rannsóknarspurninga, sem lúta að eftirlitsskyldu og leiðbeiningaskyldu fjármálaráðherra sem æðsta stjórnanda.

Er hugsanlegt að hann hafi vanrækt eftirlitsskyldu? Upplýsti hann framkvæmdaaðila um að stjórnsýslulög giltu um framkvæmdina? Var stjórnsýslulögum fylgt? Gætti hann að þeirri lagakröfu að sala á eignarhlutum ætti að stuðla að aukinni samkeppni á fjármálmarkaði? Voru gild málefnaleg rök fyrir því að hlusta ekki á varnaðarorð viðskiptaráðherra um söluaðferðina?

Þessum rannsóknarspurningum og mögulega fleiri er enn ósvarað. Sjálfstætt og óháð mat á þessum álitaefnum er lykilatriði, sem ekki er unnt að skilja eftir í lausu lofti.

Hvorki er unnt að áfellast ráðherrann né hreinsa hann nema þetta óháða mat fari fram.

Stærsta pólitíska spurningin

Í fyrra lofaði ríkisstjórnin þjóðinni að láta stjórnendur Bankasýslunnar sæta ábyrgð með því að leggja stofnunina niður.

Loforið hefur ekki verið efnt. Það kallar ekki á rannsókn, en forsætisráðherra þarf að standa skil á því hver ber ábyrgð á vanefndunum.

Stærsta pólitíska spurningin núna er þó þessi: Ætlar forystuflokkur ríkisstjórnarinnar að halda í samstöðu stjórnarflokkanna um að hindra að óháð athugun fari fram á þeim rannsóknarspurningum, sem út af standa?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim