Auðkýfingurinn á bak við skartgripamerkið Cartier hefur varpað ljósi á sinn versta ótta – að vélmenni ræni störfum frá vinnandi fólki og að þeir fátæku rísi upp og nái sér niður á þeim ríku.
Johann Rupert, forstjóri Compagnie Financiere Richemont, sagði á ráðstefnu í Mónakó á dögunum að hann eigi erfitt með að sofa vegna þeirrar tilhugsunar að stéttastríð sé framundan. Fólk þurfi að átta sig á því að þegar þeir fátæku geri uppreisn, þá muni millistéttarfólk ekki kæra sig um að kaupa munaðarvörur af ótta við að afhjúpa auð sinn.
Hann kvaðst hafa lesið sér til um breytingar í vinnutækni, sem og nýlega tölfræði sem bendi til þess að 1 prósent manna í heiminum eigi meiri auð sín á milli heldur en hin 99 prósentin.
„Hvernig á samfélagið eftir að taka ást við atvinnuleysið og öfundina, hatrið og stéttarstríðið? Við erum að rústa millistéttinni á þessum tíma og þetta mun hafa áhrif á okkur öll. Svo þetta er það sem heldur fyrir mér vöku.“
Johann er metinn á rúmlega billjón, og þá er átt við íslenska billjón, eða þúsund milljarða, svo enginn þarf að velta fyrir vöngum yfir því hvort hann til heyri 99 prósentunum, eða því eina.