Declan Rice er við það að ganga í raðir Arsenal og verður hann dýrasti leikmaður í sögu félagsins, sem og dýrasti enski leikmaður sögunnar.
Enski miðjumaðurinn, sem er á mála hjá West Ham, mun fara til Arsenal á 105 milljónir punda og Arsenal telur sig geta klárað alla pappíra og kynnt Rice til leiks á næstu 48 klukkustundum.
West Ham hefur samþykkt þriðja tilboð Arsenal upp á 105 milljónir punda en eiga félögin aðeins eftir að finna út úr því hvernig greiðslum verður háttað.
Rice mun þá þéna ágætlega hjá Arsenal. Enskir miðlar segja að hann sé aðeins með 60 þúsund pund í vikulaun hjá West Ham en að hann muni hækka í um 240 þúsund pund á viku á Emirates leikvanginum.