Faðir á þrítugsaldri er sakaður um að hafa drepið þriggja vikna dóttur sína í New York-borg. Í yfirlýsingu frá lögregluyfirvöldum borgarinnar kemur fram að að hinn 26 ára gamli Patrick Proefriedt hafi verið að rífast við eiginkonu sína sem hélt á dóttur þeirra, Eleanor Carey. Proefriedt hafi dregið upp lásboga sem hann átti og skotið ör að eiginkonu sinni. Örin hafi hæft Eleanor fyrst og síðan stungist í brjóstkassa eiginkonunanr sem lifði þó árásina af.
Proefriedt hafi fyrst fjarlægt örina og reynt að stöðva eiginkonu sína í að hringja á neyðarlínuna en síðan hafi hann flúðið af vettvangi á bíl sínum. Hann var handtekinn stuttu síðar.
Fram kemur í yfirlýsingu lögreglu að Proefriedt hafi verið kærður fyrir manndráp og manndrápstilraun. Í umfjöllun erlendra miðla kemur fram að hann hafi verið ítrekað sakaður um heimilisofbeldi og í gildi hafi verið nálgunarbann barnsmóður hans gagnvart honum.