Mikil reiði hefur brotist út á samfélagsmiðlum vegna fréttar Rúv fyrr í kvöld þar sem greint var frá átakanlegu máli Jakub Polkowski. Jakub er 23 ára gamall en varð öryrki þegar hann var aðeins 13 ára gamall í kjölfar læknamistaka. Hann þarf að notast við hjólastól í daglegu lífi og fékk að lokum tugi milljóna króna í bætur.
Hann nýtti peningana til að kaupa einbýlishús fyrir sig og fjölskyldu sína að Hátúni í Reykjanesbæ þegar hann varð 18 ára gamall. Hann staðgreiddi 44 milljónir króna fyrir húsið og hefur búið þar síðan ásamt foreldrum sínum og bróður.
Samkvæmt frétt RÚV gerði Jakub sér ekki grein fyrir að hann þyrfti að greiða gjöld eins og tryggingar, fasteignagjöld og vatnsgjald af húsinu. Alls voru vanskilin komin upp í tvær og hálfa milljón króna og fóru í innheimtu og fjarnám. Segir í frétt RÚV að engin á heimilinu hafi sinnt þessu en Jakub hafi talið að hann hann væri laus við allan kostnað við það.
Vanskilin voru ekki greidd og húsið endaði því á nauðungaruppboði. Þar mætti enginn fyrir hönd Jakub. Fyrir utan kröfuhafa mætti einn aðili á uppboðið, fulltrúi félagsins Sæstjarnan ehf. og bauð sá þrjár milljónir króna fyrir húsið og tók fulltrúi sýslumanns, sem sá um uppboðið, tilboðinu. Sæstjarnan ehf. er félag utan um útgerð smábáta í Sandgerði og er í eigu feðganna Kristins Guðmundssonar og Jónasar Sigurðar Kristinssonar.
Fyrirtækið var ekki veðhafi í eigninni fyrir kaupin en óhætt er að fullyrða að um arðbær viðskipti hafi verið að ræða enda er hús Jakubs nú verðmetið á 57 milljónir króna.
Samkvæmt lögum getur sýslumaður endurtekið nauðungaruppboð ef aðeins fást tilboð sem eru langt undir markaðsvirði eignarinnar. Lögfræðingar sem RÚV ræddi við telja óvenjulegt að ákveðið hafi verið að gera það ekki.
Ásdís Ármannsdóttir, sýslumaður á Suðurnesjum, mætti í dag ásamt lögmanni kaupandans til að bera fjölskylduna út úr húsinu. Niðurstaðan var að útburðinum var frestað fram til föstudags. Ásdís sagði við Rúv að hún hefði ekki neitt um málið að segja.
Milljónirnar þrjár sem fengust fyrir húsið dugðu rétt svo fyrir skuldunum sem voru í vanskilum og eftir sitja Jakub og fjölskylda hans allslaus. Heimilisleysi blasir við fjölskyldunni og á þessari stundu hafa þau engan stað til að fara á þegar föstudagurinn rennur upp. Lögmaður Jakub er að sögn að vinna í málinu en dómstólaleiðin er tímafrek.
Óhætt er að segja að málið hafi vakið mikla reiði á samfélagsmiðlum. Einn þeirra sem tjáir sig um málið er Vilhjálmur Birgissson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
„Svona gera menn ekki, enda blasir það við að þessi einstaklingur þarf hjálp og það er ekkert annað að gera en vinda ofan af þessari vitleysu.Ég trúi ekki að útgerðarmaðurinn frá Sandgerði sem keypti eignina á uppboði á 3 miljónir hafi samvisku til að taka við þessari eign eftir að hafa séð að hér er einstaklingur sem þarf virkilega að fá aðstoð og hjálp,“ skrifar Vilhjálmur.
Helga Vala Helgadóttir, lögfræðingur og þingmaður Samfylkingarinnar, er á sömu línu og telur blasa við að samkvæmt stjórnsýslulögum hefði átt að leiðbeina fjölskyldunni um hvaða gjöldum hún þyrfti að standa skil á. Hún telur sinnuleysið illskiljanlegt:
„Það hvílir leiðbeiningarskylda á stjórnvöldum samkvæmt stjórnsýslulögum. Nú er þetta ekki slíkt milljónasamfélag að ekki sé hægt að spyrjast fyrir um aðstæður. Hvernig geti td staðið á því að einstaklingur greiðir ekki orkureikninga og fasteignagjöld af skuldlausu húsi sínu og hvaða aðstæður valdi því að hann sinni í engu boðunum stjórnvalda.
Hefði verið úr vegi að prófa að hringja? Spyrjast fyrir? Kanna hvort eitthvert bréfanna hefði borist? Hvort fólk væri yfirleitt búsett þarna eða mögulega ekki á lífi? Hvernig getur slíkt sinnuleysi átt sér stað í örsamfélagi?“ skrifar Helga Vala.
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar og eiginmaður Helgu, vísar, á sinni Facebook-síðu í lög um að sýslumaður geti látið endurtaka nauðungaruppboð ef aðeins fást tilboð langt undir markaðsvirði eignarinnar og spyr að lokum:
„Hvaða sál er í þessu fólki? Bjóðendum, gerðarbeiðendum og þessum sýslumanni? Og hvað með þekkingu á lögum er hennar ekki krafist lengur í djobbið?“