Íþróttavikan kemur út á 433.is og í Sjónvarpi Símans alla föstudaga. Þar fá þeir Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson til sín góða gesti og í þetta skiptið mætti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir til þeirra félaga.
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætti Slóvakíu og Portúgal á dögunum en tapaði báðum leikjum þrátt fyrir fínar frammistöður. Um fyrstu leiki með Age Hareide við stjórnvölinn var að ræða.
„Við fengum ekkert út úr þessu og það er drullufúlt. Við megum ekki detta í einhvern klappstýrukór,“ segir Þorgerður.
„Það var margt þarna sem var gott og spennandi. Það eru margir líka að banka á dyrnar og það verður skemmtilegt að sjá hvernig Age og KSÍ vinna úr þessum hópi.“
Þorgerður bendir á að Age fái töluvert meiri meðbyr en Arnar Þór Viðarsson fékk í starfinu.
„Arnar fékk aldrei möguleika eða svigrúm. Við verðum að segja það eins og er, það var staðið á öxlunum á honum allan tímann.
Age er með allt með sér og við eigum að gefa þessu liði tækifæri. En við minnkum ekkert pressuna.“
Umræðan í heild er í spilaranum.