fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Séra Kristinn stefnir Þjóðkirkjunni – Atvinnulaus og tekjulaus eftir að prestakallið var lagt niður

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 24. júní 2023 14:30

Kristinn Jens Sigurþórsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Séra Kristinn Jens Sigurþórsson var síðasti sóknarpresturinn í Saurbæjarprestakalli í Vesturlandsprófastsembætti. Hann gegndi embættinu frá í júní árið 1996 og þar til þjóðkirkjan lagði prestakallið niður árið 2019. Ástæða þeirrar ákvörðunar eru sagðar þrálátar myglu – og rakaskemmdir í prestsbústaðnum en kirkjuráð taldi á endanum of kostnaðarsamt að ráðast í þær úrbætur sem tryggja myndu að húsnæðið yrði ekki framar heilsuspillandi fyrir prestinn og fjölskyldu hans.

Kristinn telur Þjóðkirkjuna vera skaðabótaskylda við sig vegna þess hvernig að þessum málum var staðið. Hefur hann stefnt Þjóðkirkjunni en málið var þingfest í febrúar síðastliðnum. Ekki er komin dagsetning á aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi.

DV hefur stefnu Kristins undir höndum, sem og greinargerð Þjóðkirkjunnar í málinu. Aðalkrafa hans er sú að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda Þjóðkirkjunnar gagnvart honum vegna þess tjóns sem hann varð fyrir vegna ákvörðunar kirkjuþings um að leggja Saurbæjarprestakall niður og ákvörðunar biskups í kjölfarið um að leggja niður sóknarprestsembætti hans.

Varakrafa Kristins er sú að Þjóðkirkjan verði dæmd skaðabótaskyld vegna þeirrar ákvörðunar biskups að hafna þeirri ákvörðun Kristins að fara á lögmælt eftirlaun eftir að honum var boðið að taka við öðru embætti innan kirkjunnar.

Þrautavarakrafa hans er sú að viðurkennd verði skaðabótaskylda Þjóðkirkjunnar vegna þeirrar ákvörðunar biskups að hafna þeirri ákvörðun Kristins um að taka boði um annað prestsembætti, vegna þess að hann hafi svarað boðinu of seint.

Þess má geta að prestsetur stóð í Saurbæ frá því um aldamótin 1200. Áhuga biskups Íslands, Agnesar M. Sigurðardóttur, á því að leggja niður prestakallið má rekja allt aftur til ársins 2012, en þá, aðeins þremur mánuðum eftir að hún tók við embætti, stóð hún að tillögu þess efnis.

Frá Saurbæ

Raki og mygla í prestsbústaðnum

Vart varð raka í prestbústaðnum í Saurbæ fljótlega eftir að Kristinn og fjölskylda hans fluttu inn árið 1996. Voru ummerki um raka í kjallara bústaðarins. Árið 1998 og aftur árið 2008 var ráðist í viðgerðir á kjallaranum. Ástæður rakans voru raktar til frágangs frárennslislagna í bústaðnum.

Árið 2013 voru enn vísbendingar um raka í kjallaranum og var verkfræðistofan Verkís ehf. fengin til að framkvæma mælingar í húsnæðinu árið 2014. Þær mælingar leiddu í ljós mikinn raka og myglu í húsnæðinu. Kom í ljós að sprunga var í hitaveitulögn að prestbústaðnum og að heitt vatn hafði runnið inn í grunn hússins. Var þetta ár ráðist í viðamiklar úrbætur.

Síðla árs 2016 óskaði Kristinn aftur eftir athugun á ástandi húsnæðisins því merki voru um versnandi heilsufar heimilisfólksins sem benti til þess að ástand hússins væri ábótavant og heilsuspillandi. Tvær verkfræðistofur, Verkís og Efla, gerðu aftur úttekt á húsinu og niðurstaðan var sú að enn væri mygla í húsinu. Þó var niðurstaða Eflu heldur neikvæðari en hún sýndi myglu á öllum hæðum hússins.

Þrautaganga

Núna tók við afar langt og flókið ferli samskipta. Í greinargerð Þjóðkirkjunnar segir að kirkjuráð og biskup hafi lýst yfir vilja til að leysa málið. Hins vegar kom allt í einu fram tillaga til kirkjuþings frá kirkjuráðs- og kirkjuþingsmanninum Stefáni Magnússyni um að leggja niður prestakallið. Er í málinu m.a. deilt um hvort Stefáni hafi verið heimilt að leggja tillöguna fram til þingsins auk þess sem hún hafi komið fram allt of seint. Þá er einnig bent á að tillagan hafi aldrei komið til umfjöllunar biskupafundar, sem samkvæmt lögum var skylt að fjalla um tillöguna þar sem hún snérist um breytta prestakallaskipan.

Í ítarlegri stefnu Kristins í málinu er rakin þrautaganga hans við að fá úrlausn mála sinna. Kom hann alls staðar að lokuðum dyrum. Honum var boðið að taka við prestsembætti í Garða- og Hvalfjarðarprestakalli. Fékk hann nokkrar vikur til að svara því tilboði. Kristinn ákvað hins vegar sem ráðherraskipaður embættismaður að fara á lögmælt eftirlaun samkvæmt 4. málsgrein  20. greinar stjórnarskrárinnar, en þar segir:

„Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum, og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.“

Þessari ákvörðun var hafnað. Kristinn ritaði þá biskupi bréf þar sem hann sagðist taka áður boðnu prestsembætti en áskildi sér samt engu að síður rétt til að sækja rétt sinn síðar varðandi það sem á undan var gengið og hann taldi vera ólögmætt. Var honum þá tjáð að embættið stæði honum ekki lengur til boða þar sem hann hefði verið of seinn til svars.

Kristinn fékk laun í 12 mánuði eftir að embætti hans var lagt niður en hefur síðan verið launalaus. Þá hefur ekkert uppgjör vegna jarðarinnar að Saurbæ farið fram en Kristinn var þá ábúandi og naut þeirra hlunninda sem jörðinni fylgdu. Í greinargerð Þjóðkirkjunnar vegna stefnunnar er því haldið fram að uppgjör vegna jarðarinnar hafi farið fram en Kristinn neitar því og hefur aldrei séð krónu í bætur fyrir glötuð réttindi sem ábúandi jarðarinnar.

Segir ákvörðunina hafa verið ólögmæta

Kristinn heldur því fram að ávörðun kirkjuþings frá 3. mars 2019 um að leggja Saurbæjarprestakall niður hafi verið ólögmæt. Þá hafi framganga, málsmeðferð og stjórnsýsla Þjóðkirkjunnar hvað varðar þessa ákvörðun ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög, eða meginreglur stjórnsýsluréttar.

Ennfremur telur Kristinn að hann hafi haft rétt til að fara á eftirlaun þegar honum var boðið að taka við prestsembætti í Garða- og Hvalfjarðarprestakalli þar sem um væri að ræða flutning úr einu embætti í annað. Hafi hann því samkvæmt áðurnefndu ákvæði stjórnarskrárinnar átt rétt á að velja á milli þess að taka við öðru embætti og að fara á lögmælt eftirlaun.

Þá er ennfremur véfengd sú ákvörðun biskups að láta boð um annað prestsembætti til Kristins ekki standa þar sem hann hefði þegið það of seint. Kristinn bendir á að hann hafi reynt með ítrekuðum bréfum að fá upplýsingar frá biskupi um starfskjör og starfsskyldur í hinu nýja embætti en svör hafi ekki borist.

Þjóðkirkjan hafnar kröfum Kristins

Í greinargerð Þjóðkirkjunnar í málinu er öllum kröfum Kristins hafnað og er þar staðhæft að ákvörðun um að leggja niður Saurbæjarprestakall og sóknarprestsembættið í Saurbæ hafi verið lögleg. Þá er því haldið fram að Kristinn hafi haft allar forsendur til að ganga að boði um að taka við nýju prestsembætti innan gefinna tímamarka enda hafi hann verið vel  upplýstur um laun og starfsskyldur þess embættis, gagnstætt því sem Kristinn heldur fram sjálfur. Þá er því algjörlega hafnað að Kristinn hafi átt lagalegan rétt á töku lögmæltra eftirlauna við þessar aðstæður.

Þjóðkirkjan hafnar því að ákvæði stjórnsýsluréttar gildi um þá ákvörðun að leggja niður Saurbæjarprestakall en jafnframt er fullyrt að ákvörðunin hafi þó að fullu verið í samræmi við stjórnsýslurétt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“