Ég stjórnaði á dögunum fjölmennri fimmtudagsgöngu á Þingvöllum. Umræðuefnið var Íslandsklukka HKL sem bæði hefst og lýkur við Almannagjá kringum aldamótin 1700. Klukkan kom út á árunum 1943-1946 og vakti gífurlega athygli. Útgáfa bókarinnar rann saman við lýðveldisstofnunina 1944. Þótt Ísland hafi lengi verið á leið til sjálfstæðis kom sjálft lýðveldið mörgum á óvart. Skyndilega var búið að rífa þjóðina úr föðurfaðmi Kristjáns 10. Danakóngs og fólk þurfti að venjast nýjum þjóðfána og þjóðsöng. Verstur var þó skorturinn á raunhæfri þjóðarímynd.
Íslandsklukkan kom færandi hendi inn í þá umræðu. Hinn margdæmdi og sýknaði glæpamaður Jón Hreggviðsson varð fljótlega þjóðarfyrirmynd. Allir vildu vera eins og Jón enda var hann kjaftfor erkitöffari sem óttaðist engan. Hann var skemmtileg blanda af götustrák og heimspekingi. Snæfríður Íslandssól varð kvenímyndin. Hún var glæsileg og gáfuð, þvengmjó eins og álfkona og frjálslynd í ástamálum.
Það er ótrúlegt en satt að þetta heilaga þjóðartvíeyki hefur haldið velli. Það má sjá á face-book og fleiri þjóðarspeglum. Snæfríður fer mikinn í líki alvarlegra gáfukvenna og álitsgjafa sem ráðleggja um megranir og feministiska rétthugsun. Jón Hreggviðsson er áberandi í öllum kjaftavaðlinum þar sem menn reyna að sýnast svalari og skemmtilegri en þeir eru.
Á seinni tímum hafa margir kastað rýrð á Klukkuna og sagt hana „þjóðernispólitískt verk“ (bókmenntafræðilegt skammaryrði). Engin bók hefur samt þó haft meiri áhrif á persónuleika þjóðarinnar. Þetta hafa yfirvöld og stjórnmálamenn margsinnis sannreynt enda er erfitt að stjórna þjóð sem hefur gert Jón Hreggviðsson að andlegum leiðtoga lífs síns.