Stjórn KSÍ tók fyrir á fundi sínum í síðustu viku málefni Laugardalsvallar og þá stöðu sem er uppi. Líkur eru á að A-landslið karla og kvenna þurfi að leika heimaleiki sína erlendis.
Karlalandsliðið er að öllum líkindum á leið í umspil um laust sæti á Evrópumótinu sem fram fer á næsta ári, þeir leikir yrðu þá í mars á næsta ári.
Ljóst er að nánast ógjörningur er að spila á Laugardalsvelli þá þar sem völlurinn hefur ekki neinn hita undir sér.
„Vanda Sigurgeirsdóttir formaður ræddi málefni Þjóðarleikvangs. Vegna breytinga á mótafyrirkomulagi UEFA gætu A landslið karla og kvenna þurft að spila mikilvæga umspilsleiki heima og heiman í febrúar og mars á næsta ári. Verði engin breyting á aðstöðu þurfum við að leika heimaleiki okkar erlendis með tilheyrandi tilkostnaði, tekjutapi, líklega óhagstæðari úrslitum, og ekki síst mun ímynd íslenskrar knattspyrnu bíða álitshnekki,“ segir í fundargerð KSÍ.
Telur KSÍ að staðan sé grafalvarleg og að Reykjavíkurborg og ríkisstjórn þurfi að finna lausn á málinu í hvelli.
„Staðan er grafalvarleg og mikilvægt að grípa til aðgerða strax. Stjórn KSÍ óskar því eftir að málefni þjóðarleikvangs í knattspyrnu fari í samskonar vinnuferli og málefni þjóðarhallar. Stjórn áttar sig á því að það muni taka einhvern tíma og því óskar stjórn eindregið eftir því að KSÍ, Reykjavíkurborg og ríkisstjórn Íslands hefji strax viðræður um það forgangsmál að bæta aðstöðu á Laugardalsvelli til að við getum leikið okkar leiki á heimavelli eins og allar aðrar þjóðir í Evrópu,“ segir í fundargerðinni.