Það voru margir Íslendingar ansi reiðir eftir tap gegn Portúgal í undankeppni EM 2024 í gær. Sigurmark Portúgala var ansi umdeilt.
Mark Cristiano Ronaldo á 89. mínútu reyndist eina mark leiksins. Var það upphaflega dæmt af vegna rangstöðu en eftir langa skoðun í VAR var dómnum snúið við.
Margir eru brjálaðir yfir þessu, enda erfitt að halda því fram að um augljós mistök dómara hafi verið að ræða með því að lyfta flagginu.
Sem fyrr segja tók VAR-skoðun ansi langan tíma. Í Innkastinu á Fótbolta.net ræddi Elvar Geir Magnússon, ritstjóri miðilsins, um þá VAR-tækni sem notuð er í landsleikjum hér á landi.
„Ég heyrði það að þessar VAR-græjur sem koma hingað til landsins séu rosalega hægar, þegar það er spólað til baka og þess háttar,“ sagði Elvar í þættinum.
„Ég heyrði að Chris Kavanagh, sem var í VAR-herberginu í leiknum gegn Slóvökum, hafi kvartað yfir hvað allt tók langan tíma. Þeir virðast ekki hafa verið að senda bestu græjurnar hingað til lands.“
Ronaldo scores winner against Iceland pic.twitter.com/ZN0fDP8FHf
— aminfc (@thego3t) June 20, 2023