Sex grunnskólanemar, foreldrar þeirra og tveir rithöfundar hafa lögsótt skólayfirvöld í umdæmi í miðhluta Flórída-ríkis í Bandaríkjunum. Lögsóknin er lögð fram vegna þess að barnabók um karlkyns mörgæsir, sem ala saman upp afkvæmi, hefur verið bönnuð.
Í frétt New York Daily News segir að skólayfirvöldin, sem eru í Lake-sýslu í nágrenni Orlando, hafi ákveðið að banna bókina, sem ber titilinn A Tango Makes Three, fyrir nemendur á öllum stigum grunnskóla allt upp í þriðja bekk. Börn í þriðja bekk í Bandaríkjunum eru á sama aldri og börn í þriðja bekk á Íslandi.
Bókin er byggð á sannri sögu og segir frá tveimur karlkyns mörgæsum í dýragarðinum í Central Park í New York borg sem taka að sér munaðarlausa ungann Tango.
Var bannið sagt byggt á grunni laga sem sett voru í Flórída ríki á síðasta ári og banna kennslu á efni sem varðar kynhneigð eða kynvitund fyrir nemendur í grunnskólum ríkisins en bannið gilti fyrir nemendur upp í þriðja bekk.
Í síðastliðnum mánuði kom ríkisstjórinn Ron DeSantis því í gegn að bannið gildir fyrir nemendur upp í áttunda bekk, sem eru 13-14 ára gamlir.
Auk þess var því bætt við lög að öll kennsla sem varðar æxlun- og æxlunarfæri, fyrir nemendur í skólum ríkisins allt að 18 ára aldri, skuli byggja á námsefni sem sé við hæfi fyrir það aldursskeið sem nemendur eru á.
Byggir lögsóknin meðal annars á þeim grunni að bannið gangi gegn ákvæðum bandarísku stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi bæði hvað varðar nemendur og höfunda bókarinnar.