Dómur var kveðinn upp í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli hjúkrunarfræðingsins Steinu Árnadóttur sem ákærð var fyrir manndráp vegna láts sjúklings, sextugrar konu, á geðdeild Landspítalans árið 2021.
Steina var ákærð fyrir að hella tveimur flöskum af næringardrykkjum upp í munn sjúklings og fyrirskipa að konunni væri haldið á meðan. Sjúklingurinn kafnaði. Héraðssaksóknari hélt því fram að Steina hefði gengið fram með offorsi en Steina sagðist sjálf hafa verið að reyna að bjarga lífi sjúklingsins þar sem matur hefði staðið í konunni og hún hafi reynt að losa um með vökva.
Vísir greinir frá því að Steina var sýknuð af ákærunni. Sýknað var í öllum ákærum saksóknara og einkaréttarkröfu aðstandanda þess sem lést var vísað frá dómi.