Eins og flestir vita nú tapaði íslenska karlalandsliðið fyrir því portúgalska, 0-1, í undankeppni Evrópumótsins í gær. Cristiano Ronaldo er auðvitað langstærsta stjarna Portúgala en þó voru ekki allir hrifnir af frammistöðu hans í gær.
Ronaldo skoraði sigurmarkið í gær í blálokin. Kappinn var að spila sinn 200. landsleik. Afar svekkjandi fyrir okkur Íslendinga.
Það var farið vel yfir leikinn í Þungavigtinni. Sparkspekingurinn geðugi, Kristján Óli Sigurðsson, gagnrýndi þar Ronaldo.
„Við vorum að spila við eitt af fimm bestu liðum heims en segjandi það þá er þetta lið er aldrei að fara að vinna Evrópumótið næsta sumar með gangandi Tom Daley dýfara upp á topp. Það er ekki fræðilegur séns.
Á móti Englandi, Frakklandi, Þýskalandi, nefndu það. Þú getur ekki verið einum færri og þeir voru það allan tímann. Eins og ég elska Ronaldo,“ sagði harðorður Kristján í þættinum.
Mikael Nikulásson tók undir með honum.
„Ég held hreinlega að ég hefði haldið boltanum betur þarna. Ef Portúgal ætlar að verða Evrópumeistari verða þeir að taka hann úr liðinu.“