Trausti Breiðfjörð Magnússon, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir borgarfulltrúa á of háum launum. Þetta mál þurfi að vera hægt að ræða, en er upplifun Trausta sú að fulltrúar meirihlutans kæri sig ekki um slíkt og hafi engan áhuga á að hrófla við laununum.
Trausti skrifar í pistli sem birtist hjá Vísi í dag að það sé nauðsynlegt að borgarfulltrúar líti í eigin barm varðandi laun þeirra og hvort þau séu sanngjörn í ljósi niðurskurðar og skertrar þjónustu hjá Reykjavíkurborg.
„Það er nauðsynlegt að borgarfulltrúar spyrji sig hvort launin sem þeir skaffa sjálfum sér séu réttlætanleg. Eru þau að vekja sátt meðal íbúa? Hvað finnst íbúum um launin okkar á sama tíma og skorið er niður til leikskóla, frístundamiðstöðva og annarrar þjónustu borgarinnar? Þurfum við ekki að byrja á okkur þegar kemur að því að taka það sem mörg kalla „erfiðar ákvarðanir“ í niðurskurði? Hvers vegna erum við alltaf undanþegin afleiðingum verðbólgu og óvissu í efnahagslífinu?“
Trausti bendir á að núverandi launafyrirkomulag hafi verið samþykkt fyrir sex árum síðan. Sama hvað borgarfulltrúum finnist um slíkt þá sé raunin sú að breytingar á launum þeirra verði aldrei samþykktir nema með aðkomu borgarstjórnar. Nú sé mikil verðbólga og Seðlabankastjóri og fleiri hafi kennt verkafólki um stöðuna. Verkafólk þurfi að sætta sig við minna út af stöðunni. Þetta sé líka venjan, að þeir sem minnst hafa milli handanna séu látnir bera þyngstu birgðirnar, jafnvel ábyrgðina á verðbólgunni.
„Á sama tíma eru kjörnir fulltrúar stikkfrí og halda því fram að við séum öll í sama báti,“ skrifar Trausti og tekur fram að hann sé því ekki sammála, en ef eigi að halda þeirri myndlíkingu á lofti þá þurfi að viðurkenna að í bátnum séu ólík farrými fyrir fólk í ólíkri þjóðfélagsstöðu og þeir sem eiga sæti í efri rýmunum, þeim sé bjargað fyrst og njóti verndar sem fólk á lægri farrýmum fái ekki.
Borgin sé ekki undanskilin efnahagsástandinu og hefur ráðist í niðurskurði. Trausti furðar sig þó á því að aldrei hafi komið til skoðunar að lækka laun kjörinna fulltrúa borgarinnar. Það hreinlega komi ekki til greina hjá meirihlutanum sem beri við afsökunum á borð við að það sé óviðeigandi að hrófla við núverandi fyrirkomulagi svo borgarfulltrúar séu ekki að ákveða eigin laun.
„Þeir hafa kosið að gera ekki neitt, sitja hjá og leyfa sjálfvirkum hækkunum að tikka inn tvisvar á hverju ári. Með því sjáum við skýrt hverjar skoðanir þeirra eru á eigin launum. Það er verið að segja „þetta er fínt fyrirkomulag, og launin eru alveg eins og þau eiga að vera“.“
Ekki sé hjá því komið að borgarfulltrúar ákveði eigin laun. Því hafi Sósíalistar lagt fram tillögu um að launahækkunum kjörinna fulltrúa borgarinnar, sem eiga að koma til framkvæmdar í júlí, verði frestað og samhliða því verði unnið að nýju fyrirkomulagi. Ekki sé sanngjarnt að laun borgarfulltrúa hækki um sömu prósentu og á almennum markaði, enda launin í borgarstjórn umtalsvert hærri og þar með hækkanirnar meiri að sama bragði. Borgarfulltrúar eigi heldur ekki að vera á of háu kaupi því þá missi þeir tenginguna við þá sem minna mega sín. Þeir átti sig ekki á hækkandi gjaldskrám og farmiðagjöldum stræti, verri velferðarþjónustu og okurleigu, svo fáein dæmi séu tekin.
Sósíalistar vilja því launastefnu sem miðar að því að hámarksbil sé á milli hæstu og lægstu launa. Æðstu stjórnendur ættu ekki að vera á margföldum láglaunum. Tillagan verður rædd á yfirstandandi fundi borgarstjórnarinnar síðar í dag.
Laun borgarfulltrúa voru í janúar á þessu ári um 963 þúsund og varaborgarfulltrúa 674 þúsund. Til viðbótar fær borgarfulltrúi tæpar 70 þúsund krónur á mánuði til að mæta persónulegum kostnaði vegna starfsins. Borgarfulltrúi á svo rétt á 25 prósent álagi á grunnlaun ef hann gegnir formennsku í fagráði/borgarstjórnarflokki eða ef hann situr í þremur eða fleiri fastanefndum. Borgarfulltrúi í borgarráði á rétt á 25 prósent álagi á laun og kjörinn varamaður á rétt á sex prósent álagi. Formaður borgarráðs á rétt á 40 prósent álagi og forseti borgarstjórnar fær 25 prósent álag.
Til viðbótar má nefna að borgarfulltrúar fá fasta mánaðarlega þóknum fyrir stjórnarsetu í Félagsbústöðum, Strætó, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Faxaflóahöfnum, Malbikunarstöðinni Höfða, Sorpu, Orkuveitu Reykjavíkur, Brú lífeyrissjóði og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Varamenn þeirra fá greitt fyrir hvern setinn fund.
Sem dæmi má nefna að einn varaborgarfulltrúi er með 985 þúsund á mánuði, en sá hefur verið í launuðu veikindaleyfi frá því í ágúst á síðasta ári og verður að líkindum í veikindafríi þar til í ágúst á þessu ári.
Borgarfulltrúi Viðreisnar, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, er svo með 1,7 milljón á mánuði, Trausti sjálfur er með 1,3 milljónir, Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks er með 1,5 milljónir á mánuði og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, er með 2,5 milljónir.