Þó svo að sumarið láti enn bíða eftir sér, að minnsta hvað hina gulu varðar, þá gengur lífið enn sinn vanagang og að venju var þingi frestað fyrir tæpum tveimur vikum og þingmenn sendir í sumarleyfi, eða svo telja margir. Líklega hugsa margir aðeins um Alþingi í samhengi við þingmennina sem þar starfa. En Alþingi er stærra en svo, og þó þingi hafi verið frestað þá fer enn fram starfsemi á Alþingi, og þingmenn eru ekki alveg eins stikkfríir og margir halda.
Eyjan leitaði til Rögnu Árnadóttur, sem hefur gegnt starfi skrifstofustjóra Alþingis frá árinu 2019, til að fræðast um þá starfsemi sem þar fer fram. Rögnu ættu flestir að þekkja enda sat hún sjálf á þingi á árum áður og gegndi embætti Dóms- og kirkjumálaráðherra árið 2009 og dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010.
Á skrifstofu Alþingis störfuðu í maímánuði samtals 143 einstaklingar í 134 stöðugildum. Þar af er starfsfólk þingflokka 26 talsins í 25 stöðugildum og aðstoðarfólk formanna flokka í stjórnarandstöðunni eru samtals fimm í sex stöðugildum.
Aðspurð um starfsemi á Alþingi á sumrin segir Ragna í skriflegu svari til Eyjunnar:
„Alþingi stendur í raun allt árið, þ.e. þingi er ekki slitið að sumri heldur þingfundum frestað Þingfundum er jafnan frestað í júní og lýkur þá þingfundum og reglulegum nefndarfundum. Áfram er unnt að kalla nefndir saman og er til dæmis nefndarfundur nú í vikunni.
Ýmis störf þingmanna halda áfram á sumrin, svo sem fundaseta innanlands og erlendis. Þetta á einkum við um júní og ágúst. Þegar líða tekur á sumarið eru þingmenn að jafnaði byrjaðir að undirbúa sig fyrir nýtt þing og leggja drög að þingmálum. Hér eru ótaldir ýmsir fundir og önnur störf innan kjördæmanna sem standa yfir allt árið.
Skrifstofa Alþingis er starfandi allt árið eins og aðrar stofnanir. Sinna þarf stjórnsýslu þingsins og almennum rekstri. Starfsfólk á sinn kjarasamningsbundna orlofsrétt og ráðstafar honum í samráði við sinn næsta stjórnanda og tekur alla jafnan langstærsta hluta orlofs síns á sumrin.
Á síðustu dögum fyrir þingfrestun afgreiðir þingið að jafnaði fjölda mála og þegar hléið hefst bíður starfsfólks það hlutverk að ganga frá öllum þeim skjölum sem fylgja þingmálunum. Við erum í þessum töluðu orðum rétt að ljúka við frágang síðustu laga og þingsályktana. Töluverður frágangur fylgir svo ritun þingræðna. Þá er svörum ráðherra við fyrirspurnum útbýtt á vef eftir því sem tilefni er til.
Sumarið er einnig notað til að undirbúa næsta þing sem hefst að hausti og sinna verkefnum sem ekki er hentugt að eiga við þegar þingið er að störfum svo sem viðhaldi og endurbótum á húsakosti, tæknibúnaði o.þ.h. Eftir verslunarmannahelgina fer undirbúningur fyrir næsta þing á fullt, bæði hjá starfsfólki skrifstofunnar og þingmönnum.“
En hvaða hlutverki gegnir skrifstofa Alþingis og hvaða verkefnum er þar sinnt? Ragna bendir á að um hlutverk skrifstofu Alþingis er fjallað í þingskapalögum, en þar segir að hlutverkið sé að styðja við starfsemi Alþingis svo að þingið geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt stjórnarskrá og lögum. Að sama bragði sé kveðið á í lögum um að verkefni skrifstofunnar séu meðal annars þau að vera forseta Alþingis til aðstoðar, framfylgja ákvörðunum hans, forsætisnefndar og ákvarðana sem teknar eru á fundi forseta með þingflokksmönnum. Skrifstofunni sé eins ætlað að veita þingmönnum og þingflokkum faglega aðstoð og þjónustu, fara með almennan rekstur þingsins og stjórnsýslu, varðveita og miðla upplýsingum um hlutverk og starfsemi Alþingis og starfrækja skjalasafn. Á skrifstofunni á einnig að vera starfrækt rannsókna- og upplýsingaþjónusta fyrir þingmenn, þingnefndir og svo að sjálfsögðu útgáfa Alþingistíðinda.
Ragna minnir á að á vef Alþingis megi finna ítarlegar upplýsingar um starfsemina, svið skrifstofunnar og verkefni þeirra. Skipulagsbreytingar hafi átt sér stað um áramótin og nýtt skipurit gefið út, en þær breytingar áttu að tryggja að skrifstofan sinni hlutverki sínu, einfalda skipulag, minnka yfirbyggingu og auka samvinnu þvert á skrifstofuna. Innan skrifstofunnar starfi fjölbreyttur hópur sérfræðinga og sérhæfðs starfsfólks sem sinni þjónustu, rekstri, ráðgjöf og stjórnsýslu þingsins allt árið um hring.
„Á vefnum er einnig að finna ítarlegar upplýsingar um þing- og nefndastörf, t.d. skrá um þingmenn og æviágrip þingmanna frá 1845. Langi einhvern að vita hvaða varamenn sitja á Alþingi eða hafa tekið þar sæti á yfirstandandi þingi upplýsir vefur Alþingis það greiðlega. Hafi fólk sérstakan áhuga fyrir þingræðum er tilvalið að líta þar við á vef þingsins þar sem eru upptökur af öllum þingræðum yfirstandandi þings ásamt ræðutexta. Nefndastarf Alþingis vekur athygli margra, enda mikilvægur þáttur löggjafarstarfsins. Yfirlit um nefndir er að sjálfsögðu á þingvefnum og margháttaður fróðleikur um þær, hlutverk þeirra og störf, þar á meðal Reglur um nefndastörf og Fróðleikur um nefndastörf. Einnig má nálgast upptökur af opnum nefndafundum á vef Alþingis.
Ef einhvern fýsir að fræðast um starfskjör þingmanna er vefur Alþingis rétti staðurinn til að leita upplýsinga um þau. Þar er hægt að komast að því hver laun og kostnaðargreiðslur þingmanna eru og hafa verið frá árinu 2007 og líta í reglur um þingfararkostnað.
Skrifstofa Alþingis hefur annast útgáfu Alþingistíðinda frá árinu 1845. Rafræn útgáfa Alþingistíðinda frá upphafi er á vef Alþingis og þar er margt fróðlegt að finna. Skrifstofunni ber að upplýsa um starfsemi Alþingis og á forsíðu vefs Alþingis er því ávallt að finna dagskrá þingfunda þegar þing er að störfum auk tilkynninga um önnur skylduverkefni þingmanna og frétta af þingstörfum. Til viðbótar þessu er á vef Alþingis fræðslu- og kynningarefni af ýmsu tagi sem ætlað er almenningi.
Skrifstofa Alþingis tekur á móti gestum í þinghúsið eftir því sem hægt er. Að jafnaði eru ekki almennar gestakomur þegar þingfundir standa yfir en annars er farið með hópa í skoðunarferðir um húsið. Er það töluverður fjöldi á ári hverju.
Frá árinu 2007 hefur Alþingi starfrækt Skólaþing. Þar er á ferð fræðsla í formi hlutverkaleiks þar sem grunnskólanemendur geta brugðið sér í hlutverk þingmanna, þingað og þráttað og komist að ýmsu gagnlegu um lagasetningu og lýðræði. Einnig hefur verið útbúinn sérstakur Ungmennavefur með margvíslegu fræðsluefni um störf Alþingis og sögu þess. Alls sóttu 2.067 nemendur Skólaþing í vetur og hafa aldrei áður komið jafn margir nemendur á Skólaþing frá stofnun þess.“
Það vakti athygli blaðamanns að undir skrifstofuna heyrir nokkur fjöldi upplýsingafulltrúa, ritstjóra og upplýsingafræðinga, og ákvað blaðamaður því að forvitnast um hlutverk þeirra.
„Í almannatengsladeild á samskipta- og alþjóðasviði starfar einn fræðslu- og upplýsingafulltrúi í fullu starfi og einn er tímabundið ráðinn í 35 prósent starfshlutfalli til aðstoðar vegna anna í Skólaþingi. Fræðslu- og upplýsingafulltrúar hafa ýmis konar hlutverki að gegna við að upplýsa um störf Alþingis og taka á móti gestum, svara fyrirspurnum frá almenningi, hagsmunasamtökum og öðrum aðilum, auk þess að sjá um móttöku nemenda í Skólaþingið.
Tveir upplýsingafræðingar starfa við rannsókna- og upplýsingaþjónustu þingsins á nefnda- og greiningarsviði í tveimur stöðugildum. Verkefni upplýsingafræðinga er m.a. að sinna rannsóknum og gagnaöflun fyrir þingmenn og starfsfólk auk þess að vinna samantektir og greingargerðir um ýmis efni. Þá sinna þau umsýslu við rekstur og viðhald bóksafns Alþingis og rafræn gagnasöfn þess.
Ritstjórar útgáfudeildar á þingfunda- og útgáfusviði eru þrír í jafnmörgum stöðugildum og fara með ritstjórnarhlutverk hvað varðar þingskjöl, ræður og lagatexta bæði á pappír og vef. Þá annast þau rekstur og uppfærslu lagasafns Alþingis ásamt því að aðstoða starfsfólk og þingmenn sem til þeirra leita.“
Starfsmenn Alþingis eru svo með sitt eigið stéttarfélaga, Félaga starfsmanna Alþingis, en þó eru ekki allir starfsmenn í því félagi heldur er hluti þeirra í Sameyki og Eflingu.
Að gamni ákvað blaðamaður svona að lokum að spyrja Rögnu svo út í reglur varðandi klæðaburð þingvarða, og hvaða hlutverki þingverðir gegna.
„Þingverðir klæðast sérstökum einkennisfatnaði sem skrifstofa Alþingis lætur þeim í té. Þeir sinna einkum ýmiss konar öryggis- og þjónustustörfum, m.a. öryggisgæslu og móttöku gesta í húsnæði Alþingis. Þá annast þeir akstur og rekstur bifreiða Alþingis, sendiferðir auk fleiri þjónustuverkefna.“
Svo þar hafið þið það kæru lesendur. Þingi hefur kannski verið frestað, en þingbjöllunni hefur þó ekki verið hringt svo að allir þingmenn og rúmlega 140 starfsmenn Alþingis komist út í sumarið, því bak við luktar dyr þinghússins fer enn fram fjölbreytt og umfangsmikil starfsemi.