Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins, segir að menn hafi getað horft á það jákvæða eftir tap gegn Slóvakíu um helgina.
Ísland tapaði 1-2 gegn Slóvakíu í afar mikilvægum leik í undankeppni EM 2024 á laugardag. Strákarnir okkar hefðu heldur betur getað skorað fleiri mörk í leiknum en nýttu ekki færin.
„Stemningin var súr fyrst og menn voru svekktir. Þetta var stórt tækifæri fyrir okkur og við fengum fullt af tækifærum í leiknum,“ sagði Aron á blaðamannafundi Íslands í dag.
Leikmenn og þjálfarateymi hafa hins vegar farið vel yfir leikinn gegn Slóvökum og ljóst að það er margt jákvætt úr honum að taka.
„Við vorum að skoða klippur úr leiknum í gær og það er margt jákvætt sem við vorum að gera í sóknaraðgerðum. Við lítum á þennan leik sem smá óheppni en það þarf að skapa sína heppni líka.
Við þurfum að nýta færin sem við fáum því maður fær ekki svona mörg færi í landsliðsbolta,“ sagði Aron Einar Gunnarsson.