Cristiano Ronaldo sat fyrir svörum blaðamanna í Laugardalnum í dag. Hann og hans liðfélagar í Portúgal mæta Íslandi í undankeppni EM 2024 annað kvöld.
„Ég býst við erfiðum leik. Að mínu mati er íslenska liðið mjög sterkt,“ sagði Ronaldo um leikinn á fundinum.
Stórstjarnan telur að heimavöllurinn gæti hjálpað Strákunum okkar.
„Þeir eru á heimavelli og það er alltaf erfitt að vinna lið sem eru á heimavelli með sína stuðningsmenn fyrir framan sig.“
Ronaldo viðurkennir þó að Portúgalir séu sigurstranglegri.
„Ég trúi á okkur. Við vitum hvað þarf að gera og vonandi gengur það upp. Þeir eru sterkir en við ættum að geta sýnt að við erum betri.“
Leikurinn hefst klukkan 19:45 annað kvöld og fer hann auðvitað fram á Laugardalsvelli.