Brynjari Joensen hefur verið veitt leyfi til að áfrýja dómi sínum fyrir Landsrétti til Hæstaréttar. Brynjar var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir fjölmörg kynferðisbrot gegn unglingsstúlkum. Sum brotin voru rafræn en hann var einnig sakfelldur fyrir nauðgun.
Samkvæmt ákæru hafði Brynjar samband við stúlkurnar í gegnum samskiptaforritið Snapchat þar sem hann klæmdist við þær, sendi þeim klámmyndir og fékk þær til að senda sér myndir. Hann var sakaður um nauðgun gegn stúlku í bíl og annarri á gistiheimli. Hann hefur fékk stúlkur til að nota kynlífshjálpartæki við kynlífsathafnir, taka upp myndbönd af þeim og láta senda honum.
Einnig er hann sagður hafa sent kynferðisleg myndskeið af einni stúlku til annarra stúlkna án samþykkis hennar, samkvæmt ákæru.
Hann er sagður hafa afhent einni stúlkunni kynlífshjálpartæki og undirföt og fengið hana til að nota tækið og senda sér myndefni af þeirri athöfn.
Brynjar er talinn hafa spilað nokkurs konar tölvuleik með þolendur sína þar sem sífellt grófari athafnir hafi verið verðlaunaðar með dýrari verðlaunum. Má í raun skipta þessu rafræna atferli upp í fimm borð, með líkingu við getustig í tölvuleikjum. Þannig hafi fyrsta borð verið að fá stúlku til að brosa eða hlæja í myndavél, borð tvö að senda mynd af buxnaklæddum afturenda og e.t.v. slá í afturendann, borð þrjú að hrista brjóst og senda mynd af næxbuxnaklæddum rassi, borð fjögur nakinn rass, brjóstaskora eða fullnekt; og lokaborðið er fullnæging í myndskeiði.
Brynjar setti þetta upp sem leik og í síma hans fundust skjáskot af borðunum fimm og skilaboð á milli hans og ótalmargra stúlkna sem hann reyndi að fá til að spila leikinn. Nær allar þær stúlkur sem Brynjar á enn eftir að ákæra fyrir að hafa brotið gegn spiluðu leikinm við hann.
Brynjar er sagður hafa greitt stúlkunum fyrir þessar athafnir og myndskeiðasendingar með rafrettum, rafrettuáfyllingarvökva, áfengi, undirfötum og kynlífshjálpartækjum.
Þess má geta að í ákæru er Brynjar meðal annars sagður hafa gerst brotlegur við lög um rafettur og áfyllingar fyrir rafrettur, sem og við ákvæði áfengislaga. Einnig er hann sakaður um brot á 99. grein barnaverndarlaga, þar sem segir: „Hver sá sem hvetur barn til lögbrota, áfengis- eða fíkniefnaneyslu eða annarrar hegðunar sem stefnir heilsu barnsins og þroska eða lífi og heilsu annarra í alvarlega hættu skal sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.“
Brynjar byggir málskotsbeiðni sína á því vafamáli hvort hægt sé að heimfæra fyrstu málsgrein 194. greinar almennra hegningarlaga upp á rafræna háttsemi. Málsgreinin er eftirfarandi:
„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.]“
Í ákvörðun Hæstaréttar er þetta rakið svo:
„Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi fordæmisgildi um hvort undir 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga geti heyrt sú háttsemi að fjarstaddur maður þvingi aðra til kynferðislegra athafna í einrúmi og með öðrum. Leyfisbeiðandi telur niðurstöðu meirihluta Landsréttar um 3., 5. og 17. ákærulið ranga og fer fram á að hún verði endurskoðuð. Beiðni sinni til stuðnings vísar hann til þess að í niðurstöðu héraðsdóms og minnihluta Landsréttar hafi háttsemin sem honum var gefið að sök í framangreindum ákæruliðum verið heimfærð til 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga á þeim grundvelli að um rafræn samskipti hafi verið að ræða og háttsemin geti því ekki átt undir 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Telur leyfisbeiðandi að rétturinn hafi vikið frá því sem almennt er lagt til grundvallar í lögskýringarfræðum að refsiheimildir beri að túlka þröngt.“
Hæstiréttur telur málið hafa fordæmisgildi og samþykkir beiðni um áfrýjunarleyfi. Málið verður því tekið til meðferðar hjá Hæstarétti.