fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Virðingarleysi gagnvart kennurum 

Eyjan
Sunnudaginn 18. júní 2023 15:00

Í kennslustofu. Verk franska málarans Jules Geoffroy frá árinu 1889.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á dögunum var greint frá því í fréttum Ríkisútvarpsins að þess væru dæmi að foreldrar nemenda í 10. bekk grunnskóla hefðu í hótunum við kennara fengju nemendurnir ekki þær einkunnir sem dygðu til inngöngu í vinsæla framhaldsskóla. Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambandsins, kvaðst aðspurður kannast við tilfelli af þessu tagi, en í fréttinni var enn fremur greint frá því að foreldrar hafi áreitt kennara af þessum sökum og sigað lögfræðingum á þá. Fréttamaður ræddi sömuleiðis við Valdimar Víðisson, skólastjóra Öldutúnsskóla í Hafnarfirði, sem sagði svona háttalag foreldra hafa færst í aukana. Í þessu fælist vanmat á störfum kennara og fagmennska þeirra væri dregin í efa.  

Þessar fréttir varpa að mínu viti skýru ljósi á rót þess mikla agaleysis sem ríkir í skólum landsins; það er ekki vonlegt að börn foreldra sem hafa í hótunum við kennara komi sjálf vel fram í skólastofunni. Enginn þarf að fara í grafgötur með að vandinn er heimafenginn. 

Frekja, yfirgangur og jafnvel ofbeldi 

Þeir sem búsettir hafa verið erlendis undrast jafnan stórum þegar heim er komið hversu mikil óregla er í skólum hérlendis og þar er ekki við kennara að sakast; vandinn er samfélagslegur. Ég hef áður gert agaleysið að umtalsefni á þessum vettvangi og kynnt mér þau mál talsvert með samtölum við kennara á öllum skólastigum. Þeir hafa sagt mér ótrúlegar sögur af grófu orðbragði nemenda, alls kyns áreitni og meira að segja ofbeldi sem þeir hafa orðið fyrir af hendi nemenda. Gamalreyndur grunnskólakennari sem ég ræddi við á dögunum kvaðst beinlínis hafa látið af störfum vegna þess hversu lítt eða illa var tekið á óreglu í viðkomandi skóla. Hluti nemenda hefði ítrekað komist upp með ofstopafulla hegðun, aðrir nemendur liðu fyrir og gátu því að vonum ekki fengið þá kennslu sem þeir áttu lögboðinn rétt á. Þetta væri þyngra en tárum taki. 

Verstu dæmin hef ég heyrt eru frá kennurum í grunnskólum en almennt agaleysi; virðingarleysi, frekja og yfirgangur virðist viðgangast á öllum skólastigum. 

Hafa viðmið skolast til? 

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara í Reykjavík, ræddi þessi mál í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrir hálfu öðru ári. Þar nefndi hún að sífellt yngri nemendur sýndu óviðeigandi hegðun, virðingarleysi og dónaskap í skólum. Það væri tilfinning kennara að slík ómenning færi vaxandi. Hún nefndi líka að eðli máls samkvæmt hlyti landlægt agaleysi í þjóðfélaginu að rata inn í skólana. Gefum Þorgerði Laufeyju orðið: 

„… við ættum öll að setjast niður og velta því fyrir okkur hvað sé ásættanleg hegðun í hóp ― og þá er það ekki bara gagnvart börnum sem eru að læra að vera fólk og taka sín skref í skóla, heldur þurfum við kannski sem samfélag að taka á því hvað er ásættanlegt.“ 

Hún velti því upp hvort ef til vill hefði orðið eitthvert rof í þessu sambandi; menn héldu að almenn samstaða væri um hvað teldist kurteisi og viðeigandi hegðun en viðmiðin kynnu að hafa skolast til og það þyrfti að ræða.  

Hluti menningarlegrar hefðar álfunnar 

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að heilbrigður agi á ekkert skylt við kúgun eða yfirgang. Tryggvi Gíslason, fyrrv. skólameistari á Akureyri, orðaði það eitt sinn svo að agi stæði í órjúfanlegum tengslum við sjálfsaga og lýðræðislegt frelsis einstaklingsins: 

„… þessi orð: sjálfsagi og lýðræðislegt frelsi einstaklingsins eru í mínum huga ekki merkingarlaus og innantóm orð heldur frumskilyrði þess að unnt sé að lifa í sátt og samlyndi í mannlegu samfélagi en það hlýtur að vera megintilgangur siðmenntaðs samfélags.“ 

Við vitum sem er að bestu hæfileikar manna fara hreinlega forgörðum ef þeir hafa ekki til að bera þann sjálfsaga sem þarf til að rækta þá og alltof margir efnilegir menn sólunda hæfileikum sínum vegna skorts á sjálfsaga. Agnarsmátt samfélag sem okkar þarf hlutfallslega á fleiri afburðarmönnum að halda en stærri samfélög og því enn brýnna að ungu fólki sé innrætt mikilvægi sjálfsaga. Samkeppnishæfni þjóðarbúsins er í húfi. 

Tryggvi benti einnig á að heilbrigður agi væri hluti af menningarlegri hefð Evrópu. Óhætt er að taka undir það ― þetta snýst ekki hvað síst um það hvort Íslendingar vilji vera hlutgengir í samfélagi annarra vestrænna þjóða. Í þessum efnum eiga nefnilega ekki að gilda nein önnur viðmið en ríkja í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við.  

Leiðir til úrbóta 

Þrátt fyrir að agaleysi nemenda sé heimafenginn vandi þá geta og eiga skólar að gegna mikilvægu hlutverki í almennu uppeldi barna, unglinga og ungs fólks. Þar er rétt að menn læri virðingu, umburðarlyndi og aga. En meðan agaleysið er jafnmikið í samfélaginu og raun ber vitni er við ramman reip að draga. Engu að síður held ég að skólarnir geti gegnt lykilhlutverki í að bæta hér úr málum og þá vitaskuld í góðri samvinnu við yfirvöld menntamála. Setja þarf með formlegum hætti almenn viðmið um kurteisi, umgengni og virðingu á öllum skólastigum og kynna þær reglur rækilega úti í samfélaginu. Að sama skapi þurfa stjórnendum skóla að vera búin raunveruleg úrræði til að taka málum ― að þeir geti beitt agaviðurlögum gerist þess þörf ― en mér sýnist hluti vandans felast í því að skólastjórnendur standa í mörgum tilfellum ráðþrota gagnvart ofstopafullum nemendum. 

Agaleysið er þjóðarböl sem þarf að ræða opinskátt og í kjölfarið ná einhvers konar þjóðarsátt um betri brag á samskiptum manna. Kannski er ekki óvarlegt að segja að heill samfélagsins sé í húfi. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
20.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
19.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu