Íslenska karlalandsliðið er í vondum málum í undankeppni EM eftir leik við Slóvakíu á Laugardalsvelli í kvöld.
Um var að ræða þriðja leik Íslands í riðlakeppninni en áður var leikið við Bosníu og Liechtenstein.
Leikurinn gegn Bosníu tapaðist 3-0 en í kjölfarið unnum við Liechtenstein sannfærandi 7-0 á útivelli.
Jón Dagur Þorsteinsson ræddi 2-1 tap Íslands við 433 eftir lokaflautið í kvöld og var svekktur eins og aðrir leikmenn Íslands.
,,Við sköpuðum okkur nóg af færum og bara nýttum þau ekki sem var lykil munurinn,“ sagði Jón Dagur.
,,Stemningin var súr. Við spiluðum fínan fótbolta og gerðum nóg til að vinna leikinn en svona er þetta.“
Vængmaðurinn ræddi svo það að missa fyrirliðann Aron Einar Gunnarsson í upphitun og að mæta stórliði Portúgals næsta þriðjudag og virkar vongóður.“
,,Það fer kannski smá í hausinn á mönnum þegar við nýtum ekki færin okkar. Auðvitað er högg að missa Aron en það kemur maður í manns stað og við tækluðum það mjög vel.“
,,Það er ekkert mál, það er aftur á þriðjudaginn bara,“ segir Jón Dagur um leikinn við Portúgal.