Ísland 1 – 2 Slóvakía
0-1 Juraj Kucka(’27)
1-1 Alfreð Finnbogason(’41, víti)
1-2 Tomas Suslov(’69)
Íslenska karlalandsliðið er í vondum málum í undankeppni EM eftir leik við Slóvakíu á Laugardalsvelli í kvöld.
Um var að ræða þriðja leik Íslands í riðlakeppninni en áður var leikið við Bosníu og Liechtenstein.
Leikurinn gegn Bosníu tapaðist 3-0 en í kjölfarið unnum við Liechtenstein sannfærandi 7-0 á útivelli.
Annað tap Íslands kom svo í kvöld en Slóvakía hafði betur með tveimur mörkum gegn einu.
Juraj Kucka skoraði fyrra mark Slóvaka með frábæru skoti utan teigs en Alfreð Finnbogason jafnaði svo af vítapunktinum.
Sigurmarkið var skorað á 69. mínútu en Tomas Suslov gerði það og var markið heldur betur slysalegt.
Jóhann Berg Guðmundsson þrumaði knettinum í Suslov og þaðan fór hann í netið og kostaði það tap að lokum.
Næsti leikur Íslands er eftir þrjá daga en þá verður andstæðingurinn Portúgal.