Flugfreyja sem starfaði hjá gjaldþrota flugfélaginu WOW stefndi Ábyrgðarsjóði launa fyrir dóm þar sem hún var ósátt við uppgjör sjóðsins á launakröfum sem hún hafði lagt fram í þrotabú flugfélagsins. Málið varðaði einkum greiðslu bifreiðastyrks á uppsagnarfresti, en sjóðurinn hafnaði því að greiða þann styrk út og fór svo að dómari í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdi sjóðnum í vil.
Ágreiningur laut, eins og áður segir, að ákvörðun Ábyrgðarsjóðs um að synja flugfreyjunni um greiðslu bifreiðastyrks á uppsagnarfresti. WOW air var tekið til gjaldþrotaskipta í mars 2019 og var þá öllum starfsmönnum sagt upp. Flugfreyjan sem málið varðar lýsti kröfu í þrotabú og var krafan samþykkt af skiptastjórum, en í heild nam lýst krafa um 2,3 milljónum og inni í þeirri tölu varð bifreiðastyrkur fyrir tvo mánuði í uppsagnarfresti upp á samtals um 130 þúsund krónur.
Eftir að skiptastjóri samþykkti kröfu hennar sótti hún um greiðslu úr Ábyrgðarsjóði í september árið 2019. Sjóðurinn féllst að mestu á kröfu hennar, fyrir utan greiðslu upp á rúmar 80 þúsund krónur í dagpeninga og svo áðurnefndan bifreiðastyrk á uppsagnarfresti.
Þessa synjun kærði flugfreyjan til félagsmálaráðuneytisins í desember 2021 og tók fram í kæru sinni að hún teldi að bifreiðastyrkurinn hefði í raun verið laun í hefðbundnum skilningi. Ráðuneytið var þó ekki sammála og staðfesti ákvörðun Ábyrgðarsjóðs og tók fram að bifreiðastyrkur gæti ekki fallið undir þær kröfur sem njóta ábyrgðar sjóðsins. Úr sjóðinum ætti aðeins að greiða ógreidd laun launþega sem teljast endurgjald fyrir vinnu þeirra á uppsagnarfresti, en ekki aðrar kröfur. Því bæri að miða við föst laun samkvæmt ráðningarsamningi og/eða kjarasamningi.
Þessu vildi flugfreyjan ekki unna og leitaði úrlausnar dómstóla. Þar kom til álita hvort að bifreiðastyrkur geti talist til fastra launa. Dómari rakti að Ábyrgðarsjóður eigi að greiða vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld. Greiðslur séu svo háðar því að skiptastjóri hafi viðurkennt kröfuna sem forgangskröfu. Hins vegar sé Ábyrgðarsjóður ekki bundinn af mati skiptastjóra, eða með öðrum orðum þó að skiptastjóri hafi samþykkt kröfuna þá er Ábyrgðarsjóði fullkomlega heimilt að framkvæma sitt eigið mat hvað greiðsluskyldu þeirra varðar. Samkvæmt lögum eigi sjóðurinn að greiða vinnulaun, en undir þetta geti fallið almenn laun og ýmsar uppbætur sem tengdar eru vinnuframlagi. Þetta hugtak eigi þó ekki við um ýmsar kröfur sem geta átt rætur að rekja til ráðningarsambands. Til dæmis kostnaður sem launamaður hefur sjálfur lagt út fyrir, kröfu um greiðslu ferðareiknings vegna ferðar á vegum vinnuveitanda og kröfu um greiðslu eldsneytiskostnaðar og annars sambærilegs kostnaðar.
Flugfreyjunni hafi, ásamt öðrum starfsmönnum WOW air, verið sagt upp störfum við gjaldþrotið og hafi hún ekki þurft að gegna vinnuskyldu í uppsagnarfresti. Flugfreyjan hafi sannanlega fengið frá Ábyrgðarsjóði greiðslur vegna vinnulauna, en bifreiðastyrk hafi verið hafnað þar sem eftir uppsögnina hafi hún ekkert unnið í þágu vinnuveitanda og þar af leiðandi ekki um neinn aksturskostnað að ræða.
Hins vegar sé ekki annað að sjá en að WOW air hafi dregið tekjuskatt af bifreiðastyrknum, líkt og um hefðbundin laun væri að ræða. Á móti hefði þó ekki verið greitt í lífeyrissjóð vegna styrksins. Eins hefði flugfreyjan ekki lagt fram nein gögn um útlagðan kostnað á móti bifreiðastyrknum, heldur þvert á móti lýst því yfir að um engan slíkan kostnað væri að ræða, og engin þörf að telja slíkt fram þar sem greiðslurnar hefðu verið skattlagðar.
Dómari leit eins yfir kjarasamninginn, en þar var bifreiðastyrkur ekki tilgreindur sem hluti grunnlauna eða fastra launa.
Var það því niðurstaðan að bifreiðastyrkurinn gæti ekki talist til fastra launa og því ekkert tilefni til að hnekkja niðurstöðu ráðuneytisins sem hafi komist að sömu niðurstöðu. Varðandi rök flugfreyjunnar um að aðrir sjóðir hefðu túlkað hugtakið laun með öðrum hætti þá benti dómari á að um Ábyrgðarsjóð gildi sérlög sem varði tiltekið og afmarkað efni. Því hafi túlkun annarra sjóða á hugtakinu laun ekki sérstaka þýðingu fyrir úrlausn þessa álitaefnis.
Kröfum flugfreyjunnar var því hafnað og Ábyrgðarsjóður sýknaður. Flugfreyjan þarf þar að auki að greiða sjóðnum 800 þúsund krónur í málskostnað.