Kylian Mbappe hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga eftir að hann opinberaði það að hann myndi ekki framlengja samning sinn við Paris Saint-Germain.
Frakkinn gerði nýjan tveggja ára samning við PSG fyrir ári síðan með möguleika á ári í viðbót. Aðeins hann sjálfur gat virkjað þann möguleika og lét hann félag sitt vita á dögunum að hann hyggðist ekki gera það.
Þetta kom mönnum í París í opna skjöldu. Fresturinn til að nýta ákvæðið hefði runnið út 1. ágúst og óþarfi fyrir Mbappe að opinbera ákvörðun sína með þessum hætti.
Félagið vill því selja hann í sumar ef kappinn framlengir ekki.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti var einn af þeim sem sannfærðu Mbappe um að vera áfram hjá PSG í fyrra þegar hann var á barmi þess að fara. Hann sagði að hann myndi reyna aftur í ár. Mbappe var spurður út í þetta á blaðamannafundi franska landsliðsins.
„Macron mun ekki hafa nein áhrif á framtíð mína. Hann vill að ég verði áfram hjá PSG og ég líka. Við erum á sömu blaðsíðunni.“