Samkvæmt tilkynningu á vef lögreglunnar í dag kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi viðhaft umferðareftirlit í Garðabæ í morgun og myndað hraðakstursbrot ökumanna. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið í norðurátt á Reykjanesbraut á móts við Miðgarð íþróttamiðstöð. Á einni klukkustund, í morgun, fóru 1.155 ökutæki þessa akstursleið. Af þeim voru 150, 13 prósent, yfir leyfilegum hámarkshraða.
Á þessum vegarkafla er hámarkshraðinn 80 kílómetrar á klukkustund en meðalhraði hinna brotlegu var 95 kílómetrar á klukkustund. Alls óku 20 ökumenn á 100 kílómetra hraða á klukkustund eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 117 kílómetra hraða.
Segir lögreglan að þessi vöktun sé liður í umferðareftirliti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og að skýjað og þurrt hafi verið á meðan mælingunni stóð.