Áhrifavaldarnir og vinkonurnar Sunneva Einarsdóttir og Birta Líf Ólafsdóttir héldu á vit ævintýranna til London á dögunum.
Vinkona þeirra og áhrifavaldurinn Hildur Sif Hauksdóttir býr í borginni og hitti stöllurnar fyrir tónleika vinsæla söngvarans Harry Styles.
Sunneva og Birta, sem eru stjórnendur hlaðvarpsins Teboðið, hafa beðið lengi eftir því að sjá Styles á tónleikum en þær sögðu frá því í nýjasta þættinum – sem ber titilinn Harry Styles – að þær hafi keypt miðana í nóvember síðastliðnum.
Áhrifavaldarnir hafa verið iðnir við að birta myndir frá ferðinni á samfélagsmiðlum og sérstaklega frá tónleikakvöldinu sjálfu en tríóið var í stíl. Litríkur kúreki virtist hafa verið þemað, Sunneva var bleik, Birta Líf fjólublá og Hildur Sif blá.
Þær virtust hafa skemmt sér konunglega á tónleikunum eins og sjá má á myndbandi sem Birta Líf birti á Instagram.
Fleiri myndir og myndbönd má sjá á Instagram-síðum þeirra; Sunnevu, Birtu og Hildar.