Það er ljóst að Mikel Arteta stjóri Arsenal mun styrkja miðsvæði sitt í sumar. Einn af þeim sem hefur verið orðaður við félagið er Moises Caicedo.
Granit Xhaka er á förum og hefur Declan Rice verið sterklega orðaður við Arsenal sem arftaki hans.
Annar sem hefur verið nefndur til sögunnar í sambandi við miðsvæðið hjá Arsenal er Caicedo hjá Brighton.
Arsenal hafði einnig mikinn áhuga á honum í janúar og bauð hæst 70 milljónir. Brighton hafnaði því.
Í nýju viðtali segir Arsenal goðsögnin Robert Pires hins vegar að félagið muni fara á eftir Caicedo.
„Ég vona að hann fari til Arsenal. Arteta vill hann og hann hefur allt til að spila fyrir Arsenal,“ segir Pires.
„Félagið er til í að borga háar upphæðir fyrir hann og það sýnir hversu góður hann er.“