Þetta kemur fram í nýrri bók eftir Nilla Fischer, sem var í landsliðinu á þessum tíma og spilaði 189 landsleiki á ferli sínum. Í bókinni skýrir hún frá kynprófi sem landsliðskonurnar urðu að ganga undir.
FIFA ákvað að keppendur skyldu gangast undir kynpróf eftir að sumir leikmenn Miðbaugs-Gíneu voru sagðir vera karlmenn. Ákvað FIFA þá að grípa til skyndirannsóknar á öllum leikmönnum.
„Við fengum skilaboð um að við mættum ekki raka okkur „þarna niðri“ næstu daga og að við ættum að sýna landsliðslækninum kynfæri okkar. Engin skildi þetta með raksturinn en við gerðum eins og okkur var sagt og veltum fyrir okkur hvað væri í gangi. Af hverju þurftum við að gera þetta núna? Það hlutu að vera aðrar aðferðir? Áttum við að neita? En um leið vildi engin missa af HM. Við þurftum að fara í gegnum niðurlægingarferlið, óháð því hversu undarlegt og særandi okkur fannst þetta,“ segir hún í bókinni að sögn Sportbladet.
Það voru síðan að sögn Mats Börjesson, landsliðslæknir, og sjúkraþjálfari liðsins sem bönkuðu upp á hjá leikmönnunum og báðu þær um að taka niður um sig og sýna sjúkraþjálfaranum, sem var kona, kynfærin.
„Þegar búið var að skoða allar í liðinu, það er að segja allar höfðu sýnt píkuna á sér, gat landsliðslæknirinn skrifað upp á að sænska kvennalandsliðið í knattspyrnu væri eingöngu skipað konum. Öllum í liðinu var brugðið vegna málsins, en mest af öllum var öllum létt yfir að þetta var búið,“ skrifar Fischer.