Luis Suarez, fyrrum leikmaður Liverpool og Barcelona, hefur svarað þeim sögusögnum sem eru í gangi.
Suarez var orðaður við Inter Miami í Bandaríkjunum og gæti þar spilað með Lionel Messi, góðvini sínum.
Messi hefur gert samning við Inter Miami en hann hefur undanfarin tvö ár leikið með PSG í Frakklandi.
Suarez er þessa dagana hjá Gremio í Brasilíu en hann hefur engan áhuga á því að vanvirða samning sinn þar.
Suarez og Messi léku um tíma saman hjá Barcelona og mynduðu eitrað teymi í framlínunni en endurfundir eru ekki í kortunum.
,,Þetta eru rangar fréttir. Ég er mjög ánægður hjá Gremio og er með samning til ársins 2024,“ sagði Suarez.