Jesse Harding Pomeroy var aðeins 14 ára gamall þegar hann myrti tvö börn í Boston í Bandaríkjunum. En morðin voru ekki fyrstu ódæðisverk Jesse því hann hafði stundað það til margar ára að misþyrma börnum, sumum hreint skelfilega.
Árið 1874 var Jesse dæmdur fyrir morðin tvö og gert að eyða ævinni innan veggja fangelsismúra.
Jesse er yngsti raðmorðingi í sögu Bandaríkjanna.
En hver var Jesse Pomerjoy?
Með galla í auga
Jesse fæddist í Charleston í Massachusetts og var oft lítið milli handa á heimilinu. Faðir hans, Thomas, vann á herstöð og móðir hans, Ruth, var saumakona. Hann átti einn eldri bróður, Charles.
Sem ungbarn fékk hann einhvern sjúkdóm, enginn veit nákvæmlega hvað sjúkdóm, en eftir að hafa jafnað sig að mestu var Jesse með þykka hvíta himnu á öðru auga. Það gerði það að verkum að hann var lagður í einelti í skóla.
Það er enn rökrætt hvað lá að baki gjörðum Jesse. Sumir segja að faðir hans hafi barið hann nakinn með svipu en aðrir segja að Jesse, og bróðir hans, hafi fengið ósköp venjulegt uppeldi barna verkafólks á þessum árum.
En ekkert skýrir þann hrylling sem Jesse átti eftir að láta saklaus börn ganga í gegnum.
Frá dýrum til barna
Jesse var aðeins 5 ára þegar að nágranni hélt því fram að Jesse hefði stungið kött hans með hníf og drepið. Hann hefði síðan hent hræinu í nálæga á. Kennarar sögðu hann furðulegan, ekki slæman nemanda, en erfitt að átta sig á honum. Kennarar og samnemendur hans lærðu snemma að Jesse tók æðiskast ef hann var leiðréttur eða gagnrýndur á einhvern hátt og hættu því með öllu að eiga, það sem má kalla venjuleg, samskipti við hann.
Jesse varð því snemma einfari en Ruth móðir hans dekraði við hann á allan hátt.
Jesse var 12 ára þegar hann byrjað að misþyrma börnum og 13 ára hóf hann að nauðga ungum drengjum. Börn í Charlestown fóru í auknum mæli að segja frá því að stór strákur hefði ráðist á þau. Hann hefði lokkað þau á afvikinn stað með loforði um sælgæti en síðan barið þau með hnefum og belti og nauðgað. Jesse gekk með hnífa á sér og skar börnin í andlit og kynfæri auk þess að stinga nálum í þau.
Það braust út mikil reiði í samfélaginu en lögreglu tókst ekki að finna árásarmanninn. Það var þó ein manneskja sem þekkti nafn hans og það var Ruth Pomeroy, sem vissi af vel sekt sonar síns. Ákvað hún að flytja fjölskylduna til suðurhluta Boston, þar sem enginn þekkti Jesse.
En það breytti engu og Jesse hóf að misþyrma börnum í Boston. Fjölmiðlar komust á snoðir um málið og var hinn óþekkti árársarmaður kallaður Pyntingastrákurinn eða Rauði djöfullinn.
Katie og Horace
Í ágúst 1872 fannst drengur, liggjandi nakinn við ströndina, og hafði hann verið pyntaður. Nokkrum dögum síðar fannst annar ungur drengur bundinn við símastaur og hafði hann verið barinn og honum nauðgað. Báðir lifðu þeir árásirnar af.
Eitt fórnarlambanna sagði árásarmanninn hafa auga sem væri eins og hvít marmarakúla og var lögregla snögg að finna hinn 13 ára Jesse í kjölfarið. Hann var dæmdur til vistar á betrunarheimili í sex ár en það tók móður hans, Ruth, aðeins örfáa mánuði að fá Jesse lausan. Með skelfilegum afleiðingum.
Aðeins einum mánuði eftir að Jesse losnaði úr betrunarvistinni hvarf hin tíu ára gamla Katie Curran. Hún hafði síðast sést á saumastofu Ruth Pomerjoy, þar sem Jesse afgreiddi. Lögregla yfirheyrði hann og leitaði í búðinni en án árangurs. Jesse kvaðst ekkert vita um dvalarstað Katie.
Fimm vikum síðar fannst hinn fjögurra ára gamli Horace Millen látinn við ströndina. Hafði höfuð hans næstum verið skorið af. Við hlið líksins var áberandi skófar, eftir grófbotna stígvél, og mundu lögreglumenn hvern þeir höfðu séð í stígvélum fyrir ekki svo löngu síðan.
Jesse Pomeroy.
Réttarhöld og dómur
Lögregla hélt þegar í verslun Ruth þar sem Jesse var, klóraður á höndum og í blóðugum fötum. Jesse Pomeroy var handtekinn 24. apríl árið 1874 og játaði á sig morðið á Horace litla, enda yfrið nóg af sönnunum.
Ruth seldi saumastofuna í hvelli til að eiga fé fyrir lögfræðingi fyrir Jesse. En nýju eigendum brá í brún þegar þeir fundu rotnað lík Katie Curran undir hrúgu af drasli í kjallaranum.
Og aftur játaði Jesse á sig morð.
Réttarhöldin yfir Jesse hófust 9. desember 1874, rétt eftir fimmtánda afmælisdag hans. Verjandi bað honum griða vegna ungs aldurs en kviðdómur hafði enga samúð með Jesse né heldur dómari og aðeins sólarhring eftir að réttarhöldin hófust var Jesse Pomeroy dæmdur til dauða.
En ríkisstjóri Massachusets neitaði að skrifa undir dauðadóminn og sagði það af og frá að hann sendi 15 ára pilt í dauðann. Var því Jesse dæmdur til ævilangrar fangelsisvistar og það í einangrun.
Taldi dómurinn morðin það hrottaleg og yfirveguð að það væri það eina rétta í stöðunni. Samfélaginu stafaði mikil ógn af Jesse.
Tæp 60 ár innan múra
Jesse reyndi margoft að flýja fangelsin næstu fimmtíu árin og tókst það næstum einu sinni. Hafði hann þá náð að valda sprengju í gasleiðslu í klefa sínum en komst ekki langt.
Jesse Pomeray lést af völdum hjartaáfalls árið 1932 og hafði þá dvalið í 59 ár í hinum ýmsu fangelsum fylkisins, lengst allra fanga.
Hann eyddi tímanum í að læra nokkur tungumál, skrifa ljóð og merkilegt nokk, fjárfesta í hlutabréfum og græddi þokkalega. Alla þessa sex áratugi fékk Jesse aðeins einn gest, Ruth móður sína sem kom reglulega þar til hún lést.
Þegar að Jesse dó hafði hugtakið raðmorðingi ratað inn í tungumálið. Og þótt að almenna reglan sé að raðmorðingi sé einstaklingur sem myrði þrjá eða fleiri, eru önnur kennimerki. Aðferðir Jesse Pomeray báru einkenni raðmorðingja. Hann valdi fórnarlömb sín, hann bjó til aðstæður til að ná til þeirra og pyntaði og myrti á sama hátt.
Auk þess getur vel verið að Jesse hafi myrt fleiri börn. En það veit enginn í dag.