Íþróttavikan kemur út alla föstudaga á 433.is, Hringbraut.is og í Sjónvarpi Símans. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson fá þar til sín góða gesti. Í þetta sinn sat landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson með þeim.
KSÍ hefur úrskurðað Steinþór Frey Þorsteinsson í bann frá knattspyrnu út árið vegna brota á lögum um veðmál. Hann má byrja að spila knattspyrnu aftur í byrjun næsta árs.
Veðmál í boltanum voru tekin fyrir í þættinum.
„Við erum í nokkurs konar áhugamannadeild hérna. Á kannski að leyfa mönnum að veðja á fótbolta á Íslandi á meðan það er ekki eigið lið eða deild?“ spyr Hrafnkell Freyr.
Helgi tók til máls. „Það var leikur hjá KA á einum seðli og ég verð bara að setja risastórt spurningamerki við það.“
Jóhann telur að endurskoða megi reglurnar.
„Ég myndi segja það, sérstaklega í áhugamannadeild. En að veðja á eigin leik er ekki eitthvað sem menn ættu að fá að gera. En að skella í einhvern seðil um úrvalsdeildina og þú ert í þriðju deild. Það finnst mér glórulaust (að refsa fyrir það). Mér finnst það allt í góðu.“
Umræðan í heild er í spilaranum.