Að minnsta kosti nítján Íslendingar létust hér á landi af völdum seinni heimsstyrjaldarinnar, þar af fjórtán vegna bílslysa þar sem bandaríska og breska herliðið átti hlut í máli. Þetta er niðurstaða BA-ritgerðar sagnfræðinemans Gauta Páls Jónssonar sem hann skilaði inn á dögunum og gæti þróast út í bók um málefnið.
Auk bílslysanna, sem ekki hafa verið kortlögð áður að því er vitað er, lést ein stúlka að öllum líkindum vegna árásar hermanns og þrír urðu fyrir byssuskotum. Þá lést 37 ára gamall karlmaður þann 8. mars 1943 eftir að hafa fengið sprengjubrot í öxlina þar sem hann var á gangi í Austurstræti ásamt félaga sínum. Það mál er í raun ástæðan fyrir áhuga Gauta Páls á málefninu en hinn látni hét Ásmundur Elíasson og var langafi hans.
DV fjallaði ítarlega um slysið í apríl í fyrra en þá umfjöllun geta lesendur kynnt sér hér.
„Ég heyrði af þessum nöturlegu örlögum langafa míns sem barn en þetta var aldrei rætt sérstaklega. Hin síðari ár fékk ég svo mikinn áhuga á því að fræðast betur um hvað gerðist enda hafði þetta slys mikil áhrif á fjölskyldusögu mína. Langamma mín stóð skyndilega uppi sem ekkja með tvö ung börn, ömmu mína tveggja ára og bróður hennar sem var sjö ára gamall. Hún fékk að endingu bætur frá Bretum, um 16 milljónir króna að núvirði, og afréð að flytja í kjölfarið norður til Akureyrar og þar býr stærstur hluti fjölskyldunnar enn þann dag í dag,” segir Gauti Páll.
Talsvert hefur verið fjallað um þá Íslendinga sem létust á hafi úti á stríðsárunum þó að nákvæmar tölur um dauðsföll séu á reiki. Talið er að yfir tvö hundruð Íslendingar hafi fengið vota gröf en ekki er ljóst í öllum tilvikum af hverju sum skip sukku.
Minna hefur farið fyrir rannsóknum á dauðsföllunum á landi og lítið um skriflegar heimildir. Þannig minnast sumar bækur um hersetuna ekki á andlát Ásmundar þrátt fyrir að það sé afar óvenjulegt í sögu landsins. Til þess að reyna að komast til botns í því hversu mörg dauðsföllin, sem rekja mættu til herliðanna, afréð Gauti Páll að fletta í gegnum hvert einasta Morgunblað sem gefið var út á þessum árum og það reyndist ærið verkefni.
„Morgunblaðið var einfaldlega efnismesta blaðið á þessum tíma og því lá það beinast við. Ég vildi ekki treysta á einhver leitarorð þannig að ég fletti hverju einasta blaði og las hverja blaðsíðu vandlega. Þetta var talsvert mikil vinna og ég tók þetta í skorpum yfir skólaárið,” segir Gauti Páll og brosir.
Hann segir að það hafi komið sér á óvart hversu margir Íslendingar, fjórtán talsins, létust af völdum bílslysa þar sem setuliðið átti hlut í máli. Þar af urðu fimm börn undir tíu ára aldri fyrir herbifreiðum.
„Ég set þann fyrirvara að það þarf ekki að vera að þetta sé tæmandi upptalning,” segir hann. Til að mynda fann hann gögn um eitt andlát í bílslysi, sem Morgunblaðið greindi ekki frá, á Þjóðskjalasafninu en um var að ræða umsókn um slysabætur til herliðsins. „Það andlát átti sér stað þegar þriggja vikna prentaraverkfall stóð yfir og engin blöð komu út,” segir Gauti Páll.
Skömmu eftir að hann skilaði ritgerðinni benti leiðbeinandi hans, Ragnheiður Kristjánsdóttir, honum á hræðilegt mál þar sem bresk sprengja olli dauða eins fullorðins manns og þriggja barna árið 1946, á Ási í Fellum. Til er ritgerð um það mál eftir nöfnu leiðbeinandans, Ragnheiði Kristjánsdóttur. „Því máli má í raun bæta við upptalningu mína, því þótt að dauðsföllin hafi orðið eftir að stríðinu lauk þá var það sannarlega sprengja eftir breska herinn sem olli slysinu.” segir Gauti Páll.
Því útilokar hann ekki að fleiri dauðsföll hafi átt sér stað sem hann hafi ekki enn upplýsingar um.
Í gegnum árin hafa þrjú andlát vakið einna mestu athyglina en það voru andlát tveggja karla og eins drengs sem voru skotnir til bana á meðan hersetunni stóð. Það voru þeir Þórður Einarsson, 21 árs, Gunnar Einarsson, 35 ára, og Jón Hinrik Benediktsson sem var aðeins 12 ára þegar hann lést.
„Þessi mál eru mjög sláandi. Þórður var skotinn til bana eftir rifrildi við hermenn á bar sem endaði í áflogum. Þeir báðu Þórð og félaga hans að útkljá málið úti á götu, þegar þangað var komið rifu tveir hermenn upp byssur og hófu skothríð. Gunnar Einarsson var skotinn í höfuðíð þar sem hann var farþegi í bíl sem átti að hafa keyrt á meintu bannsvæði en mál litla drengsins, Jóns Hinriks, er hræðilegt í alla staði enda er það nánast eins og aftaka,“ segir Gauti Páll.
Niðurstöður þessara mála voru þær að árásarmennirnir í máli Þórðar voru dæmdir í fimm ára fangelsi. Þeir voru sendir til Fort Leavenworth fangelsisins í Kansas, Bandaríkjunum til að afplána dóma sína, og voru þeir einnig reknir úr Bandaríkjaher.
Hermaður sem skaut Gunnar til bana var sýknaður því við réttarhöldin var komist að þeirri niðurstöðu að bílstjóri bifreiðarinnar hafði haldið áfram án leyfis eftir að hafa numið staðar vegna fyrstu skoðunar og láðst að nema staðar aftur þegar hermaðurinn fyrirskipaði það.
Morðingi Jón Hinriks var sömuleiðis sýknaður á grundvelli þess að hann væri geðveikur og gerði ekki greinarmun á réttu og röngu. Var reynt að draga foringja herdeildar hans til ábyrgðar fyrir að hafa slíkan mann í vinnu en hann var einnig sýknaður þar sem ekkert benti til þess að hann hafi vitað um ástand hermannsins. Var hermaðurinn sendur til Bandaríkjanna þar sem hann var vistaður á geðveikrahæli.
Eitt nöturlegasta málið sem Gauti Páll fjallar um er andlát Steinunnar Sigurðardóttur sem kom ekki upp á yfirborðið fyrr en áratugum síðar og þá í gegnum samfélagsmiðla. „Frænka Steinunnar greindi frá því í Facebook-hópnum Gamlar ljósmyndir að ráðist hafi verið á hana af breskum hermönnum þegar hún var á leið úr skóla. Tveir aðilar, Gísli Jökull Gíslason og Sævar Þorbjörn Jóhannesson, lögðust í kjöfarið í rannsóknir á dagbókum lögreglu frá þessum tíma og þar var greint frá árásinni á Steinunni, sem var 13 ára að aldri, á Suðurlandsbraut.“
Steinunn varð fyrir áverkum á höfði við árásina en þekkingin á afleiðingum slíkra áverka var ekki sú sama og hún var í dag. Rannsókn Gísla Jökuls og Sævars leiddi það í ljós að stúlkan hefði kvartað undan þrálátum hausverk eftir árásina og lést hún nokkrum dögum síðar. Var dánarorsökin skráð sem heilahimnubólga en RÚV fjallaði ítarlega um sögu málsins fyrir rúmum mánuði síðan.
Auk morðanna fjögurra og dauðsfallanna vegna sprengju- og bílslysa þá fjallar ritgerð Gauta Páls einnig að einhverju leyti um sambúð Íslendinga við bresku og bandarísku herliðin. „Það virðist vera sem sambúðin við Bretanna hafi gengið mun betur og færri sögur af ryskingum milli þeirra og Íslendinga en milli Bandaríkjamanna og Íslendinga,“ segir Gauti Páll.
Dregur hann þá ályktun meðal annars af því að umfjallanir Morgunblaðsins um ryskingar milli Íslendinga og Breta voru mun fátíðari en fregnir af slíkum uppákomum milli bandaríska herliðsins og heimamanna. Að mati Gauta Páls verður þó að gera greinarmun á hertöku og hervernd. „Það voru gerðir samningar við Bandaríkjamenn 1941 á meðan Bretar hertóku þjóðina 1940, og ofbeldismálin sem tengdust Bandaríkjaher voru meira uppi á borðum. Til að mynda óskaði forsætisráðherra eftir skýrslum um ofbeldismál af hendi bandarískra hermanna,” bendir Gauti Páll á.
Við vinnslu ritgerðarinnar rakst Gauti Páll einnig á fjölmörg mál þar sem litlu mátti muna að illa færi en blessunarlega fór allt vel. Þar koma við sögu byssur, sprengjur og loftárásir.
Gauti segir að eitt fjarstæðukenndasta atvikið hafi átt sér stað þann 29. maí 1941 þegar breski herinn var við skotæfingar á Álftanesi. Einhver misskilningur varð til þess að hermennirnir létu kúlum rigna yfir íbúabyggð og áttu nokkrir íbúar, þar á meðal börn, fótum fjör að launa.
„Sá sem mest slapp með skrekkinn var maður sem sat í mestu makindum utandyra í stól. Það segir í umfjöllun Morgunblaðsins að svefn hafi sótt að honum og hann því farið inn að leggja sig. Þegar hann vaknaði og fór aftur út sá hann að stóllinn var sundurskotinn af vélbyssukúlum,“ segir Gauti Páll kíminn. Málið var rannsakað og endaði með því að breski herinn baðst afsökunar.
Eins og áður segir hyggst Gauti Páll vinna áfram að rannsóknum sínum og mögulega munu þær einn daginn enda í bók um samskipti breska og bandaríska herliðsins við Íslendinga. Hefur hann meðal annars óskað eftir myndum og ítarlegri upplýsingum á samfélagsmiðlum um þau mál sem hann hefur þegar fjallað um og ekki síður um mál sem mögulega hafa farið fram hjá honum.
„Ég útiloka ekki að dauðsföllin hafi verið enn fleiri og ég hef fengið góð viðbrögð við beiðnum mínum um frekari upplýsingar. Sérstaklega í gegnum hópinn „Gamlar ljósmyndir“ á Facebook en þaðan hef ég fengið margar ábendingar. Ég vona að ég geti þróað verkefnið lengra og gefið umfjöllunina út í bók þar sem uppfærður listi yrði birtur. Ég held að það sé mikilvægt að skrá þessa sögu áður en þær kynslóðir sem upplifðu þessi ár hverfa af sjónarsviðinu,“ segir Gauti Páll.
Á dögunum var lögð fram þingsályktunartillaga fyrir Alþingi um að minnast þeirra Íslendinga sem létust af völdum stríðsins. „Ég vona að nöfn þeirra sem ég tók saman verði einnig á þeim lista sem Alþingi ætlar að minnast. Mér þætti það við hæfi,“ segir Gauti Páll að lokum.