Kristófer Acox fyrirliði Vals í körfubolta hefur framlengt samning sinn við félagið til tveggja ára. Þetta herma mjög öruggar heimildir DV.is.
Kristófer gekk í raðir Vals árið 2020 en þá kom hann frá uppeldisfélagi sínu í Vesturbæ, KR.
Kristófer hefur verið með bestu leikmönnum deildarinnar undanfarin á. Hann fékk afar gott tilboð frá Tindastóli þetta vorið en hafnaði því til að vera áfram á Hlíðarenda.
Þessi kröftugi leikmaður var lykilmaður í liði Vals sem tapaði úrslitaeinvíginu gegn Tindastóli á dögunum.
Samningur Kristófer er eins og fyrr segir til tveggja ára en hugur virðist vera í Val fyrir næstu leiktíð, Finnur Freyr Stefánsson mun sem dæmi áfram stýra liðinu en hann er afar sigursæll þjálfari og gerði Val að Íslandsmeisturum árið 2022 þar sem Kristófer lék stórt hlutverk.
Kristófer fagnar þrítugs afmæli sínu síðar á þessu ári en hann er lykilmaður í íslenska landsliðinu.