Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði er spenntur fyrir komandi verkefni í undankeppni EM 2024. Hann ræddi við 433.is í Laugardalnum í dag.
Íslenska liðið er komið saman til æfinga. Tíu dagar eru í leik gegn Slóvökum og þremur dögum síðar mæta Strákarnir okkar Cristiano Ronaldo og félögum í Portúgal.
„Það er gaman að vera kominn heim og æfa á Laugardalsvelli. Það er langt síðan síðast hjá mér,“ segir Aron, sem sneri aftur í landsliðið eftir langa fjarveru síðasta haust.
Það er fátt betra en að spila heimaleiki í Laugardalnum yfir sumartímann.
„Það hefur gengið vel, margir góðir leikir sem við höfum spilað yfir sumartímann á Laugardalsvelli. Við þurfum að ná í þessa sigurhefð aftur sem við vorum búnir að byggja upp hér.“
Liðið gerir sér grein fyrir mikilvægi leiksins gegn Slóvakíu, sem er án efa eitt af þeim liðum sem mun berjast um annað sæti undanriðilsins og sæti á EM.
„Þetta eru leikir sem við þurfum að vinna. Við setjum þá pressu á okkur.“
Åge Hareide, nýr landsliðsþjálfari, er að fara að stýra sínum fyrstu leikjum.
„Hann er með skýra mynd á hvernig hann vill að við spilum og það er gott. Hann veit hvað hann vill og það er mikilvægt fyrir okkur að sjá það og finna.“
Ítarlega er rætt við Aron í spilaranum.