Ríkisstjórnin hefur tilkynnt aðgerðir gegn verðbólgu. Hæst ber að með lögum verður launahækkun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna takmörkuð við 2,5 prósent í stað 6prósenta sem annars hefði orðið.
Tillögur ríkisstjórnarinnar eru lítt útfærðar en meðal þess sem kynnt er er tvöföldun stofnframlaga til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins.
Helstu aðgerðir eru:
- Lögum verður breytt þannig að laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins hækki um 2,5% í stað 6% þann 1. júlí nk. Þannig verði tryggt að laun æðstu embættismanna skapi ekki aukinn verðbólguþrýsting.
- Stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins verða tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána verða aukin enn frekar þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins verða þær 1000 á ári. Auk þess verður 250 nýjum íbúðum bætt við fyrri áætlanir þessa árs og verða þá samtals tæplega 800. Þetta styður við aukið framboð á húsnæðismarkaði.
- Fjármálareglur taka gildi ári fyrr en áætlað var en þeim var tímabundið vikið til hliðar í heimsfaraldri.
- Frumvarp um stofnun Þjóðarsjóðs verður lagt fram að nýju til að styrkja enn frekar áfallaþol ríkissjóðs til framtíðar.
- Lagt verður mat á árangur af núverandi fjármálareglum og tækifæri til úrbóta.
- Afkoma ríkissjóðs verður bætt um 36,2 milljarða króna á næsta ári með sparnaði í rekstri ríkisins, þar með talið niðurskurði í ferðakostnaði, frestun framkvæmda, nýjum tekjum og með því að draga úr þensluhvetjandi skattaívilnunum eins og fram kemur í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
- Þar af verður framkvæmdum fyrir a.m.k. 3,5 milljarða króna frestað tímabundið til að draga úr þenslu. Meðal verkefna er nýbygging stjórnarráðsins og samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila.
- Til þess að verja kaupmátt örorku- og ellilífeyrisþega verður lífeyrir almannatrygginga hækkaður um 2,5% frá miðju ári, til viðbótar við 7,4% hækkun í upphafi árs.
- Frítekjumark húsnæðisbóta leigjenda verður hækkað um 2,5% fyrir yfirstandandi ár, afturvirkt frá 1. janúar sl., til viðbótar við hækkun þess í upphafi árs um 7,4%.
- Þá er unnið að lagabreytingum sem munu bæta réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði og mun starfshópur skila tillögum sínum þar að lútandi fyrir 1. júlí næstkomandi.
- Kannaðar verða breytingar á lagaumhverfi heimagistingar til að jafna samkeppnisstöðu og draga úr þrýstingi á húsnæðismarkað.