Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle og fyrrum forseti Íslands, hefur verið skipaður í alþjóðlega ráðgjafarnefnd Loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna, COP28, sem haldið verður í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í lok þessa árs.
Ráðgjafarnefndinni er ætlað að fjalla um áherslur og samningsmarkmið Loftslagsþingins, nýjungar og sérstök verkefni sem stuðlað geta að lausn loftslagsvandans.
Í ráðgjafarnefndinni eiga sæti forystumenn, sérfræðingar og áhrifafólk frá helstu heimsálfum. Meðal þeirra eru Laurent Fabius, fyrrum forsætisráðherra Frakklands og forseti hins árangursríka Loftslagsþings í París, Ernst Moniz, fyrrum orkuráðherra Bandaríkjanna, Mukesh Ambani, helsti viðskiptajöfur Indlands, Hindou Ibrahim, forystukona ungra frumbyggja í Afríku og Izabella Teixeira, fyrrum umhverfisráðherra Brasilíu.
Forseti Loftslagsþingsins, Dr Sultan Al Jaber, skipaði ráðgjafarnefndina en hann var m.a. stofnaðili Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle.
Ráðgjafarnefndin hefur þegar haldið nokkra fundi og mun taka virkan þátt í undirbúningi Loftslagsþingsins sem sett verður á Heimssýningarsvæði Sameinuðu arabísku furstadæmanna 30. nóvember.