Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku – og loftslagsráðherra, leggst eindregið gegn áformum um „Nýja Skerjafjörð“ og segir þau vera atlögu að ósnortinni náttúru í Reykjavík. Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Guðlaugur skrifar:
„Tillagan gengur út á að eyða óraskaðri fjöru í Skerjafirði og gera í staðinn 4,3 ha. landfyllingu á um 700 metra kafla um 100 metra út í sjó. Verði áform meirihlutans að veruleika mun það valda verulegum umhverfisáhrifum á svæði sem er skilgreint sem mikilvægt búsvæði fyrir fugla og fellur undir sérstaka vernd náttúruverndarlaga. Líffræðileg fjölbreytni, leirur og fjörulíf verða fyrir óafturkræfum skaða og ljóst að náttúran er ekki látin njóta vafans.“
Guðlaugur afritar síðan hluta af áliti Náttúrufræðistofnunar á tillögunni, þar sem segir að hægt sé að þétta byggð án þess að ganga á fjörur og lífríki:
„Það er því mat Náttúrufræðistofnunar að vel megi þétta byggð þó ekki sé um leið gengið enn frekar á fjörur og lífríki þeirra í Reykjavík. Ef markmið um þéttingu byggðar, Nýja Skerjafjarðar, er eyðilegging núverandi Skerjafjarðar þá þarf að hugsa skipulagsmál á svæðinu og annars staðar upp á nýtt.“
Þá bendir hann á að í áliti Umhverfisstofnunar komi fram að áformin munu valda verulegum umhverfisáhrifum á svæði sem skilgreint er sem mikilvægt búsvæði fyrir fugla og falli undir sérstaka vernd náttúruverndarlaga.
Guðlaugur rifjar upp „grænu byltinguna“ sem var helsta kosningamál Sjálfstæðismanna í höfuðborginni fyrir hálfri öld en sú stefna stuðlaði að auknum grænum svæðum. Guðlaugur segir núverandi meirihluta ganga gegn þessari stefnu:
„Sem betur fer hefur borgin haldið í flest þessi svæði en á síðari árum hefur orðið sú stefnubreyting hjá borgaryfirvöldum að grænu svæðin eiga að víkja fyrir byggð. Núverandi meirihluti stefnir að því að ganga á græn svæði í Elliðaárdal, Laugardal og Grafarvogi. Nú þegar er aðgengi íbúa Reykjavíkur verra en annarra íbúa á þéttbýlissvæðum innan OECD samkvæmt nýlegri úttekt. Þannig eru einungis 3,5% þéttbýlissvæða hérlendis skilgreind sem græn svæði, en meðaltal OECD-landanna er um 17%.“
Guðlaugur hvetur meirihlutann til að hætta við áformin um „Nýja Skerjafjörð“. „Hér er í uppsiglingu eitt stærsta umhverfisslys okkar tíma á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hann.