Kristján Óli Sigurðsson sparkspekingur hefur beðið þjálfara karlaliðs Fram, Jón Sveinsson, afsökunar á röngum fréttaflutningi fyrir helgi.
Kristján hélt því fram í hlaðvarpinu Þungavigtinni að Jón hafi farið í frí norður á Akureyri nokkrum dögum fyrir leik Fram gegn KA í Bestu deildinni. Hann hafi svo hitt leikmenn sína fyrir norðan skömmu fyrir leik.
Þetta var hins vegar leiðrétt fyrir helgi og kom í ljós að Jón hafði farið á Siglufjörð í jarðarför og aðeins misst af einni æfingu fyrir leik Fram gegn KA.
„Heimildamaður minn var aðeins úti á túni. Þetta er ekkert í fyrsta sinn sem menn villa á sér heimildir. Ég hefði betur unnið heimavinnuna aðeins betur,“ segir Kristján Óli í nýjasta þætti Þungavigtarinnar.
„Ég get nýtt tækifærið hér og beðið Jón afsökunar. Mönnum verður stundum á í messunni og hann svaraði fyrir sig á vellinum,“ bætti Kristján við, en Fram vann sterkan 4-1 sigur á Keflavík á föstudag.