Um árabil hafa Íslendingar farið eftir fyrirmælum um að skola allar fernur, brjóta þær saman og setja með pappír og pappa í endurvinnslu. Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson, blaðamaður á Heimildinni, hefur nú varpað ljósi á að ekki bara sé ekki verið að endurvinna fernurnar, sem Íslendingar nota meira af en plastflöskum, heldur séu fernurnar í raun að vinna gegn raunverulegri endurvinnslu á pappír og pappa.
Um þetta er fjallað í nýjasta tölublaði Heimildarinnar og hefur umfjöllunin vakið gífurlega athygli. Bjartmar mætti í Sprengisand í morgun og fór yfir málið og komu vægast sagt áhugaverðar upplýsingar þar fram.
Bjartmar hefur áður fjallað ítarlega um endurvinnslumál hér á landi og meðal annars varpað ljósi á afdrif plastúrgangs sem Íslendingar töldu hafa skilað sér í endurvinnslu en hafði í raun flakkað heimshornanna á milli til að daga svo uppi í vörugeymslum.
Bjartmar segir með ólíkindum að endurvinnslukerfi á Íslandi sé ekki betra en raunin er. Hér beri einnig á ákveðnum misskilningi hvað varðar hugtökin endurvinnsla annars vegar og svo endurnýting hins vegar. Þetta sé ekki það sama. Umbúðir í verslunum merktar með grænu laufblaði þýði ekki að um endurvinnanlegar umbúðir sé að ræða heldur vísi það í langflestum tilvikum til þess að hægt sé að endurnýta þær í orkuframleiðslu með því að kveikja í þeim.
Fernurnar sem landsmenn hafa svo skolað og brotið saman af samviskusemi séu hreinlega ekki endurunnar og allar meiningar um slíkt séu hreint og beint bull. Fernur séu ekki hreinn pappi heldur samanstanda af um fjórðungi af plasti og áli. Því sé það kostnaðarfrekt ferli að endurvinna þær og þurfi til slíks sérstakar græjur, sem fyrirtækin sem taka við fernunum frá okkur eigi ekki til.
Ferlið kosti meira en venjuleg pappírs endurvinnsla, krefst meiri orku, lengri tíma og meira af nauðsynlegum efnum til að leysa fernurnar upp. Þetta leiði til þess að úrvinnslukostnaður ferna sé meiri en hefðbundins pappírs.
Þessi staðreynd sé þó ekki endurspegluð í úrvinnslugjaldi hérlendis þar sem fernur séu hreinlega settar í sama flokk og pappírinn.
„Það er verið að blekkja okkur við það að láta okkur skola einhvern gamlan myglaðan rjóma sem maður fann þarna innst í ísskápnum, sem maður gleymdi, og maður gerir það samviskusamlega og setur það í pappír. Það sem líka gerist í þessu ferli er að maður mengar í raun og vera pappírsstrauminn.“
Það sem Bjartmar á þar við er að þegar fernur fara í endurvinnslu með venjulegum pappír sé í raun og veru verið að menga þann flokk, þar sem fernur eru ekki hreinn pappír. Fernurnar nái ekki að leysast upp í því endurvinnsluferli og ekki nóg með það heldur steli þær til sín smá af hreina pappírnum og eyðileggja fyrir ferlinu að einhverjum hluta.
Það sé vitað mál að flokka þurfi með nákvæmari hætti. En núverandi fyrirkomulag megi rekja til sparnaðar. Bjartmar tekur fram að lögum samkvæmt eigi framleiðendur að bera fulla ábyrgð á kostnaði við úrvinnslu á umbúðum sínum. Það geri framleiðendur hér á landi ekki þar sem fernur hafi verið settar í ódýrari pappírsflokkinn.
Á sama tíma hafi Sorpa setið uppi með tap þar sem lægra verð fæst fyrir pappírsúrgang ef fernur eru í honum.
Bjartmar segir að við rannsókn sína hafi þeir aðilar hér á landi sem beri ábyrgð á málinu ekki verið samvinnuþýðir og hafi hann komið nánast alls staðar að lokuðum dyrum hjá ríkisstofnunum, sem og hjá ráðherra málaflokksins.
„Úrvinnnslusjóður bæði stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs neita að ræða við mig. Mjólkursamsalan neitaði að veita mér viðtal og ég hef ekki fengið að ræða við ráðherra. Allir aðilar sem einhvern veginn bera ábyrgð á þessu neita að ræða það.“
Framkvæmdastjóri Sorpu hafi þó samþykkt að ræða við Bjartmar og kom hreint og beint fram og viðurkenndi að fernur fara ekki í endurvinnslu, að söfnun þeirra sé ekki umhverfisvæn og þær eigi ekki að vera í því söfnunarferli sem þær nú eru í .
Samkvæmt frumvarpi til laga um drykkjarumbúðir hafi staðið til að allar drykkjarumbúðir bæru skilagjald. Við meðför Alþingis á frumvarpinu hafi þó fernur verið teknar þar út fyrir og segir Bjartmar það sæta mikilli furðu því þá sé í raun verið að segja að mjólk og mjólkurdrykkir flokkist ekki sem drykkjarvara, þar sem umbúðir þeirra séu ekki taldar vera drykkjarumbúðir.
Bendir Bjartmar á að meirihluti stjórnar Úrvinnslusjóðs sé skipaður aðilum á vegum atvinnulífsins. Rannsókn hans hafi leitt í ljós að þegar Úrvinnslusjóður var stofnaður árið 2003 hafi sérstakt úrvinnslugjald verið sett á fernur sem á núvirði næmu 60 krónum í dag. Með því að flokka fernur sem pappír frekar en drykkjarumbúðir sé úrvinnslugjaldið þó mun lægra. Til samanburðar horfði hann til Þýskalands þar sem úrvinnslugjald á fernur er jafnvel hærra en 60 krónur. Því liggur ljóst við að umtalsverðir hagsmunir hafa verið hjá framleiðendur og innflytjendum að fá þetta lægra pappírgjald heldur en hitt.
„Við erum með sérkerfi fyrir plastflöskurnar en fernurnar einhvern veginn ná að húkka sér far með einhverjum öðrum flokki því hann er með eitt lægsta úrvinnslugjald sem þú getur fundið.“
Eins hafi Bjartmar átt erfitt með að fá skýr svör um afdrif ferna, fyrirtækið Terra hafi bent á fyrirtæki í Þýskalandi, sem kannaðist þó ekkert við þau viðskipti þegar Bjartmar hafði samband. Þá hafi Úrvinnslusjóður haldið því fram að notast væri við millilið, en sá milliliður kom alveg af fjöllum.