Lögregla var kölluð til að heimili í miðborginni í dag. Þar hafði maður knúið að dyrum hjá nágranna sínum og hótað honum ofbeldi með hamri. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar greinir einnig frá manni í annarlegu ástandi sem olli eignaspjöllum í miðborginni og var með hótanir í garð annars manns. Var þessi maður handtekinn og vistaður í fangageymslu þar til ástand hans lagast og hann verður viðræðuhæfur.
Lögreglan var síðan kölluð til í Hafnarfirði þar sem maður var að reyna að komast inn í íbúð félaga síns þar sem hann ætlaði að fá fíkniefni. Vinur hans var ekki heima og var manninum ekið á brott.
Tilkynnt var um umferðaróhapp þar sem ökumaður sagðist hafa misst stjórn á bíl sínum með þeim afleiðingum að hann endaði á grjóti. Ekki urðu slys á fólki.