Það er útlit fyrir að ítölsku stórliðin AC Milan og Napoli muni berjast um Folarin Balogun, framherja Arsenal í sumar.
Balogun er 21 árs gamall og hefur farið á kostum á láni hjá Reims í Frakklandi á þessari leiktíð. Skoraði kappinn 20 mörk í frönsku úrvalsdeildinni.
Sóknarmaðurinn ungi snýr aftur til Arsenal í sumar en ekki er ljóst hvort hann verði á Emirates-leikvanginum á næstu leiktíð. Fyrir hjá Arsenal eru Gabriel Jesus og Eddie Nketiah í hans stöðu.
Balogun hefur sagt að hann vilji vera fastamaður og gæti hann því vel farið í sumar.
Hefur hann verið orðaður sterklega við AC Milan en samkvæmt Mirror ætlar Napoli einnig að reyna að fá hann.
Victor Osimhen gæti farið frá félaginu í sumar og Balogun því verið arftaki hans.
Balogun ákvað í vor að velja að leika fyrir bandaríska landsliðið frekar en það enska.