Maður á ótilgreindum aldri var í dag sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir þrjár líkamsárásir.
Fyrsta árásin átti sér stað fyrir tveimur árum, þann 10. júní 2021, utandyra á lóð hjá húsi í Reykjavík. Sló hinn ákærði þar mann í höfuðið með kústskafti úr áli, sparkaði síðan og kýldi brotaþola í höfuð og maga. Hlaut brotaþolinn mar, skrámu og bólgu af árásinni.
Næsta brot átti sér stað í september árið 2021, á bílastæði í Reykjavík. Sló hinn ákærði þá mann í höfuðið með kylfu svo maðurinn hlaut af lófastóra kúlu aftan á hnakka.
Þriðja árásin átti sér stað í ágúst árið 2022, utandyra við hringtorg á Víkurvegi við Vesturlandsveg í Reykjavík. Barði hann þá mann með krepptum hnef í andlit svo sauma þurfti manninn níu spor í vörina.
Hinn ákærði játaði brot sín skýlaust fyrir dómi. Hann hefur ekki áður gerst brotlegur við lög, þ.e. áður en að þessum þremur alvarlegu brotum kom. Manninum er einnig virt til refsilækkunar ungur aldur en aldur hans er ekki gefinn upp í dómnum.
Niðurstaðan var sú að ákvörðun refsingar yfir unga manninum er frestað og fellur hún niður að tveimur árum liðnum ef hann heldur skilorð. Hann þarf hins vegar að greiða málskostnað upp á rúmlega 230 þúsund krónur.
Dóminn má lesa hér.