Íslenska karlalandsliðið er í baráttu um sigurinn á Norðurlandamótinu í bridds. Kvennalið Íslands er í þriðja sæti þegar mótið er tæplega hálfnað.
Fyrr í dag unnu íslensku karlarnir stórsigur gegn Dönum og eru nú í öðru sæti, um 11 stigum á eftir Norðmönnum sem leiða mótið. Konurnar gerðu sér einnig lítið fyrir og unnu Svía einnig mjög stórt í leik sem lauk í hádeginu. Mótið fer fram í Svíþjóð.
Birki Jón Jónsson, fyrrum þingmaður og bæjarfulltrúi í Kópavogi, er í hópi þeirra sem skipa íslenska karlalandsliðið. Hann er að vonum kátur með frammistöðuna það sem af er.
„Það er góð stemning í hópnum, ég hef virkilega góða tilfinningu fyrir þessu móti,“ segir Birkir Jón.
Kvennaliðið skipa Anna Ívarsdóttir fyrirliði, Inda Hrönn Björnsdóttir, Anna Heiða Baldursdóttir, Arngunnur Jónsdóttir og Alda Guðnadóttir.
Landsliðið í opnum flokki skipa Jón Baldursson þjálfari, Sigurbjörn Haraldsson, Birkir Jón Jónsson, Matthías Þorvaldsson, Bjarni H. Einarsson og Aðalsteinn Jörgensen.
Mótið fer fram í Örebro en keppni lýkur á morgun.