Woody Allen virðist að mestu hafa sagt skilið við Evrópu, en þegar hann færði sögusvið myndanna þangað fyrir áratug eða svo gekk ferill hans í endurnýjun lífdaga. Það er helst að hann bregði sér til Frakklands inni á milli, og þá ekki til samtímans heldur aftur til 3. áratugarins, sem hann virðist hafa mikið dálæti á.
Hér er spíritisminn tekinn fyrir, sem var mjög í tísku á þessum tíma, á Íslandi sem annars staðar. Efnafólk borgaði fúlgur fjár fyrir að komast í samband við framliðna ættingja, en fagmenn í sjónblekkingum á borð við Harry Houdini kepptust við að fletta ofan af svikahröppum sem efnuðust á trúgirni fólks. Colin Firth er hér í hlutverki Houdini fígúrunnar, en Emma Stone, sem virðist í uppáhaldi hjá Allen þessa dagana, leikur sjáandann.
Þetta er hið ágætasta sögusvið fyrir Woody Allen-mynd, og um tíma verður úr nokkurs konar Sherlock Holmes-saga þar sem yfirnáttúrlegar skýringar takast á við veraldlegar. Annað er afar kunnuglegt, ung kona er trúlofuð myndarlegum ungum manni en kemst brátt að því að hamingjan er fólgin í sér eldri og reyndari karlmönnum. Vísað er í heimspeki og listir á stangli án þess að hugmyndir séu krufðar til mergjar og óttinn við dauðann er allsráðandi eins og oftast hjá persónum Allens.
Allen er trúr sjálfum sér í hinni kaldranalegu heimsmynd og er það vel, en síðasti þriðjungurinn, þar sem ástarsagan er í fyrirrúmi, hefur oft verið betur gerður. Eftir stendur dæmigerð Woody Allen-mynd, skemmtileg að vanda en manni finnst maður hafa séð flest hér áður.