Sögulegt met var slegið í útskriftarathöfn Menntaskólans í Kópavogi þegar dúx skólans hlaut hreina 10 í meðaleinkunn. Dúxinn er Orri Þór Eggertsson sem var að ljúka námi við raungreinabraut sem og á afreksíþróttasviði skólans. Semidúx skólans var svo með þriðju hæstu einkunn í sögu skólans, eða 9,87 í meðaleinkunn.
Tera Rún Júlíusdóttir, nýsveinn í framreiðslu, var hæst nemenda verknáms með 9,13 í meðaleinkunn en hún sat annan og þriðja bekk samhliða á vorönn og því er árangurinn sérstaklega eftirtektaverður.
Við hátíðina fór Guðríður Eldey Arnardóttir, skólameistari, yfir sögu skólans sem fagnar nú 50 ára afmæli og greindi frá auknum vinsældum náms við skólans og sagði félagslífið vera sterkt og námsframboðið vandað. Nemendur í verknámi á erlendum vettvangi hefðu náð glæsilegum árangri og skarað fram úr á heimsvísu.
Í tilkynningu frá MK segir:
„Skólameistari fór með ræðu Ingólfs A. Þorkelssonar sem hann flutti fyrsta útskriftarárgangi skólans árið 1977 en færði orðalag örlítið til nútímans. Orð Ingólfs eiga jafnvel vel við í dag eins og þegar þau voru mælt fyrir 46 árum. Þar sagði Ingólfur: –
„Og mikil stórvirki hafa verið unnin á sviðum tækni og vísinda, ekki vantar það. En þrátt fyrir alla framvindu erum við fjær því en nokkru sinni að sjá öllum svöngum jarðarbörnum fyrir mat og sjálf vísindin hafa sýnt fram á það með óyggjandi rökum að heimurinn okkar, heimur tækni og vísinda er heimur á heljarþröm. Heimur sem fær ekki staðist nema mannkynið geri sér ljóst að gæði jarðarinnar eru ekki óþrotleg og að varnarbarátta framtíðarinnar verður að snúast um varðveislu lífvænlegs umhverfis og réttlæti, en ekki um taumlausan ágóða og aukinn hagvöxt einni þjóð til handa á meðan önnur líður skort“
„Baráttan fyrir betri heimi verður bæði löng og tvísýn. Í þeirri baráttu er þörf djarfra viðsýnna og drengilegra liðsmanna. Í þeirri baráttu er þörf fyrir ykkur.
Hafi seta ykkar í Menntaskólanum í Kópavogi hjálpað til að gera ykkur hæf til þeirrar baráttu hefur ekki verið stritað til einskis.“