Íþróttavikan kemur út alla föstudaga hér á 433.is og í Sjónvarpi Símans. Þar fá þeir Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson til sín góða gesti í hverri viku og ræða það helsta úr heimi íþrótta. Að þessu sinni sat Viðar Örn Kjartansson með þeim.
Vinicius Junior, leikmaður Real Madrid, varð enn og aftur fyrir kynþáttaníði í spænska boltanum á dögunum í leik gegn Valencia.
„Mér finnst að það ætti að taka á þessu þannig að þeir mættu ekki spila með áhorfendur, hafa harða refsingu. Það er hægt að taka 3-4 gæja og setja þá í eilífðarbann en áhorfendabann og risasekt, þá myndu þessir klúbbar blæða og þá færi eitthvað loksins að gerast,“ segir Viðar.
Spænska deildin og knattspyrnusambandið fengu á baukinn fyrir viðbrögð sín. „Þessi yfirlýsing frá Tebas, þetta var bara dapurt,“ segir Hrafnkell.
Helgi tók til máls. „Það lýsir viðhorfinu svolítið vel að í vetur spurði spænskur blaðamaður Klopp hvort Vinicius væri að gera eitthvað til að verðskulda að verða fyrir áreitinu. Galið.“
Umræðan í heild er í spilaranum.