Bandaríska leyniþjónustan CIA hefur sett af stað verkefni til þess að komast í samband við Rússa sem eru ósáttir við Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, og vilja grafa undan honum. Sérstaklega er leitað eftir löndum hans með viðkvæmar upplýsingar.
CIA stofnaði nýja rás á samskiptaforritinu Telegram, sem er vinsælt með Rússa, þar sem tveggja mínútna langt myndband með ofangreindu ákalli var aðgengilegt. Þá var komið með ráðleggingar um hvernig hægt væri að setja sig í samband við leyniþjónustuna með öruggum hætti. Sama myndband var svo birt á Twitter, Facebook og Youtube.
„Fólk í kringum þig hefur kannski ekki áhuga á sannleikanum en það höfum við. Þú ert ekki valdlaus,“ segir meðal annars í myndbandinu.
Myndbandinu er ætlað að höfða til óánægðra Rússa sem hafa í fá hús að venda varðandi það að koma óánægju sinni á framfæri. Í grein CNN kemur fram að þeir Rússar sem hafa lagt CIA hönd á plóg geri slíkt ekki endilega fyrir peninga heldur af væntumþykju fyrir landi og þjóð sem þeir telja að sé stjórnað með glæpsamlegum hætti.
Þá eru margir í persónulegum hefndarhug enda hafi ákvarðanir stjórnvalda í Kreml bitnað á þeim persónulega eða ástvinum þeirra.
Alríkislögreglan FBI fór sömu leið í apríl og auglýsti þá eftir óánægðum rússneskum diplómötum á Twitter sem staðsettir væru í Bandaríkjunum til samstarfs.
Dmitry Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, var spurður út í auglýsingar CIA á dögunum og hann sagðist fullviss um að rússneska leyniþjónustan fylgdist vel með gangi mála. Ýjaði hann að því að þarna væri kjörinn vettvangur til þess að leita svikara uppi.