„Hvernig það breytti lífi mínu að ganga 10 þúsund skref á dag í mánuð,“ „hvernig það mun breyta líkama þínum að ganga 10 þúsund skref á dag,“ „10 þúsund skref á dag fyrir þyngdartap,“ og ótal fleiri svipaðar fyrirsagnir má sjá á mörg þúsund greinum og myndböndum á samfélagsmiðlum.
Þú hefur örugglega heyrt að kjörinn skrefafjöldi á dag sé tíu þúsund skref og þá áttu eftir að „lifa lengur, grennast, líða betur“ og svo framvegis. Þetta er mjög vinsælt heilsuátak og hefur til að mynda einn vinsælasti áhrifavaldur Íslands, raunveruleikastjarnan Sunneva Einarsdóttir, verið að taka þátt í áskoruninni og hvatt fylgjendur sína á Instagram að gera slíkt hið sama; að ganga tíu þúsund skref á dag.
Hún gaf fylgjendum sínum nokkur ráð til að bæta við skrefum í daginn. Eins og að vakna fyrr og byrja á smá göngutúr eða skokki. Standa upp að minnsta kosti einu sinni á klukkutíma og ganga smá um og ganga í tíu mínútur eftir hverja máltíð.
Hugmyndin um að tíu þúsund skref á dag hámarki heilsu þína hefur verið viðloðandi heilsumenningu í áratugi. En eru þessi 10 þúsund skref á dag heilög eða mýta?
Bandaríski áhrifavaldurinn Patrick Campbell fjallaði um heilsuátakið á dögunum og sagði að það væri blekking. Hann fór á stúfana og skoðaði sextán mismunandi rannsóknir um skrefafjölda og komst að þeirri niðurstöðu að fimm til sjö þúsund skref á dag séu nóg.
New York Times fjallaði um málið í september 2021 og vísaði í nokkrar rannsóknir sem renna stoðum undir að tíu þúsund skref á dag séu ekki nauðsynleg fyrir heilsuna. Þau ræddu við Dr. I-Min Lee sem sagði að ganga sé allra meina bót en fyrir flesta sé nóg að ganga milli sjö til átta þúsund skref á dag.
Læknamiðstöðin UT Southwestern fjallaði um þetta í nóvember 2022 og sagði læknirinn Bethany Agusala að „ná átta til tíu þúsund skrefum á dag þegar við erum yngri er kannski góð hugmynd en sex til átta þúsund skref á dag þegar við erum eldri er nóg og raunsætt.“
Aðrar rannsóknir segja að fjögur þúsund skref á dag sé nóg, en því fleiri skref því betra. Það er því erfitt að fá skýrt svar um hversu mörg skref á dag við ættum að taka en virðist sameiginlega niðurstaðan þessara rannsókna vera sú að tíu þúsund sé umfram þarfir.
Þetta byrjaði allt í Japan á Ólympíuleikunum árið 1964. Leikarnir voru mjög vinsælir meðal almennings þetta árið og vildu heilbrigðisyfirvöld í landinu nota tækifærið og hvetja landsmenn til að hreyfa sig meira. Þeir fengu úrframleiðandann Yamasa með sér í lið og til varð fyrsti skrefmælirinn. Markaðsherferð tækisins snerist í kringum eina tölu – 10 þúsund – og er hægt að þýða lauslega nafn þess – Manpo-kei – sem ‚tíu þúsund skrefa mælirinn‘.
Augljóslega sló herferðin í gegn þar sem nú, sextíu árum seinna, erum við enn að heyra um þessi tíu þúsund skref. Mörg fitness úr, eins og FitBit, hvetja notendur til að taka tíu þúsund skref á dag.
En sama hversu mörg skref þú ákveður að taka á hverjum degi, hvort sem það eru fjögur, átta eða tíu þúsund skref, þá er eitt á hreinu, það bætir heilsuna að hreyfa sig og ganga.