Það er óhætt að segja að ósætti sé á milli FH og KSÍ þessa stundina. Félagið sendi út yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem framkvæmdastjóri sambandsins, Klara Bjartmarz, fær gagnrýni. Málið var tekið fyrir í Dr. Football.
Málið snýr að eins leiks banni sem Kjartan Henry Finnbogason var dæmdur í af Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ.
Bannið fékk hann fyrir olnbogaskot sem hann veitti Nikolaj Hansen, leikmanni Víkings, í leik liðanna fyrir rúmri viku. Framherjinn fékk ekki rautt spjald fyrir atvikið í leiknum en Klara vísaði málinu hins vegar til nefndarinnar, sem svo dæmdi hann í bann.
FH gaf út yfirlýsingu í kjölfarið, þar sem Klara var harðlega gagnrýnd.
„Hún var mjög löng fyrir lítið innihald,“ sagði Jens Sævarsson um yfirlýsinguna í Dr. Football.
Hann telur að bannið hafi verið réttmætt.
„Að mínu mati verðskuldar þetta bara bann. Þessi yfirlýsing frá FH, þeir fara um víðan völl en innihaldið var í raun bara það sem Klara sagði.“
FH-ingar vöktu athygli á olnbogaskoti Nikolaj Hansen í leik Víkings gegn HK í gær. Vilja sumir þeirra að atvikið fari á borð Aga- og úrskurðarnefndar, eins og mál Kjartans.
„Þetta opnar þessar dyr. Nú ertu búin að opna þessar dyr,“ sagði Albert Brynjar Ingason í þættinum.
Meira
Birtir athyglisvert myndband og hjólar í KSÍ í ljósi stöðunnar – „KSÍ clowns“