Atletico Madrid er komið í annað sæti spænsku úrvalsdeildarinnar eftir leiki kvöldsins á Spáni.
Atletico var í engum vandræðum með Osasuna á heimavelli og hafði betur sannfærandi 3-0.
Á sama tíma tapaði Real Madrid óvænt gegn Valencia en aðeins eitt mark var skorað og það gerði Diego Lopez fyrir heimamenn.
Real kláraði leikinn manni færri en Vinicius Junior fékk að líta rautt spjald á lokasekúndunum.
Sigurinn gerir gríðarlega mikið fyrir Valencia sem var í fallbaráttu en er nú fimm stigum frá fallsæti.
Fyrsta leik dagsins lauk þá með 2-1 sigri Espanyol gegn Rayo Vallecano en það fyrrnefnda er að berjast fyrir sæti sínu í deildinni.